Andlát – Bjarni Guðráðsson í Nesi

Bjarni Guðráðsson bóndi í Nesi í Reykholtsdal er látinn 86 ára að aldri eftir stutt veikindi. Bjarni fæddist á Skáney 13. janúar 1935. Foreldrar hans voru Guðráður Davíðsson og Vigdís Bjarnadóttir. Þau byggðu nýbýlið Nes úr Skáneyjarjörðinni og fluttu þangað með tvö barna sinna 1937. Bjarni varð eftir í fóstri hjá ömmu sinni og afa; Helgu Hannesdóttur og Bjarna Bjarnasyni á Skáney fyrstu árin eftir að foreldrar hans fluttu í Nes, en fylgdi þeim þangað þegar hann var níu ára. Skólaganga Bjarna var fyrst í farskóla en landsprófi lauk hann frá Héraðsskólanum í Reykholti 1951. Síðar á lífsleiðinni stundaði hann tónlistarnám og varð organisti og söngstjóri í Reykholtskirkju um áratugaskeið auk þess að þjálfa og stýra fleiri kórum.

Eiginkona Bjarna var Sigrún Einarsdóttir frá Kletti. Þau hófu búskap 1955, fyrstu tvö árin í Gróf en eftir það og alla tíð síðan í Nesi. Fyrst bjuggu þau í félagi við Guðráð og Vigdísi en síðar um tíma með Sigurði elsta syni þeirra og Vöku Kristjánsdóttur eiginkonu hans. Í Nesi var í fyrstu rekið blandað bú en síðan eftir 1970 stórt kúabú þegar tekið hafði verið í notkun framúrstefnufjós á þess tíma mælikvarða. Ráku þau kúabúið til aldamóta, leigðu það út um nokkurra ára skeið en aflögðu síðan. Í Nesi var þá aukin áhersla lögð á ferðaþjónustu með gerð níu holu golfvallar og byggingu golfskála og síðar sölu gistirýmis í eldri húsum á bænum. Sigrún og Bjarni áttu fjögur börn og ættleiddu það fimmta. Sigrún lést 16. september 2017.

Á engan er hallað þótt sagt sé að Bjarni í Nesi hafi lagt drýgri skerf til samfélagsins í sinni heimasveit og á vettvangi félagsmála, en flestir aðrir. Hann sat um tíma í hreppsnefnd Reykholtsdalshrepps, var lengi í forystu Búnaðarsambands Borgarfjarðar og sat þá Búnaðarþing. Meðal verka hans á þeim vettvangi var myndarleg útgáfa á ritverkinu Byggðir Borgarfjarðar. Bjarni stýrði byggingarnefnd Ungmennafélags Reykdæla þegar byggt var við félagsheimilið Logaland á áttunda áratugnum. Þegar kom að því að endurreisa Reykholtsstað eftir að skólahaldi þar var lokið tók Bjarni að sér að veita forstöðu byggingarnefnd nýrrar Reykholtskirkju og Snorrastofu. Helgaði hann krafta sína því verkefni um árabil og lagði allt undir. Veðsetti jafnvel jörð sína til lántöku þegar bið var á framkvæmdafé eftir öðrum leiðum. Slíkt hið sama gerði fólk í safnarnefnd og sóknarprestur að auki.

Þetta gamla höfuðból, héraðsbúar og raunar landsmenn allir eiga því þeim félögum Bjarna í Nesi og sóknarprestinum sr. Geir Waage mikið að þakka. Saman voru þeir í forsvari fyrir verkefni sem var svo miklum mun stærra en lítill söfnuður einn og sér hefði getað staðið undir. Segja má að Geir hafi aflað verkefninu stuðnings heima og erlendis meðan Bjarni stýrði verklega hluta framkvæmdanna heima fyrir, dyggilega studdur af Sigrúnu eiginkonu sinni. Því verki lauk með vígslu Reykholtskirkju 1996 og Snorrastofu fjórum árum síðar. Á þjóðhátíðardaginn 2000 nældi forseti Íslands riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu í barm Bjarna fyrir störf hans að kirkjutónlist og varðveislu menningarminja.

Bjarni veiktist skyndilega og lést réttri viku síðar, í gær sunnudaginn 31. október, á Landspítalanum í Reykjavík. Útför hans verður gerð frá Reykholtskirkju laugardaginn 6. nóvember klukkan 11:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir