Frá Atvinnusýningunni árið 2014. Á myndinni eru þeir Pálmi Þór Sævarsson og Gísli Karel Halldórssón sem þá störfuðu báðir hjá Verkís verkfræðistofu. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Atvinnusýningin í Hjálmakletti í Borgarnesi á laugardaginn

Fyrir tveimur árum var ætlunin hjá Rótarýklúbbi Borgarness að standa fyrir atvinnusýningu í Hjálmakletti í Borgarnesi en vegna heimsfaraldursins varð hins vegar ekkert af sýningunni. Nú á að blása til sóknar á ný og næstkomandi laugardag verður hún haldin í þriðja skiptið en hún var einnig haldin árin 2012 og 2014. Birna G. Konráðsdóttir er ein af skipuleggjendum sýningarinnar og sagði hún í spjalli við Skessuhorn að undirbúningurinn hefði farið í fullan gang í byrjun september. Ríflega 30 fyrirtæki og stofnanir hafa skráð sig til þátttöku til að kynna starfsemi sína og sagði Birna að von væri á því að fleiri myndu bætast við á næstu dögum. Sýningin hefst klukkan 10.30 á laugardeginum með málstofu sem ber nafnið Matvælalandið Ísland; Loftslagsmál og kolefnisspor en þar eru frummælendur þau Guðmundur I. Guðbrandsson umhverfisráðherra, Haraldur Benediktsson alþingismaður, Kristján Oddsson bóndi og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskóla Íslands. Áætlað er að málstofunni ljúki um klukkan 12.30.

Milli kl. 12 og 13 verður hægt að fá íslenska kjötsúpu sem nemendur í Menntaskóla Borgarfjarðar sjá um að bera fram og þá verða þeir einnig með vöfflukaffi eftir klukkan 14 en nemendurnir eru að safna sér fyrir útskriftarferð.

Klukkan 12.30 hefst svo atvinnusýningin og segir Birna að hún sé fyrst og fremst hugsuð til kynningar á því fjölbreytta starfi sem er í gangi í grunnsamfélaginu og því mestmegnis fyrirtæki og stofnanir í Borgarbyggð sem munu kynna sig og sína starfsemi í Hjálmakletti á laugardaginn. Þá sagði hún að á sýningunni væru einnig aðilar sem ekki væru með höfuðstöðvar á svæðinu en með starfsstöðvar. Birna sagði enn fremur að hún vonaðist til að þátttakan yrði góð og markmiðið væri að 500 til 700 manns myndu sækja sýninguna. Þátttakan á hinum tveimur sýningunum var um eða yfir þúsund manns. Hún sagði einnig að þau telji að þessi sýning sé sannarlega þess virði að fólk komi og kíki við og bendir á að aðgangur sé ókeypis og öllum heimill.

Skemmtiatriði verða á boðstólnum á sýningunni þar sem Ásta Marý Stefánsdóttir og Heiðmar Eyjólfsson skemmta gestum með spili og söng. Þá stígur Krílakórinn á stokk en það eru börn á aldrinum 3-5 ára sem syngja með sínu nefi undir stjórn Birnu Þorsteinsdóttur.

„Markmið verkefnisins er sem fyrr að gefa rekstraraðilum á starfssvæði klúbbsins tækifæri til að kynna starfsemi sína á heimavettvangi og vekja þannig athygli samfélagsins á hinni fjölbreyttu starfsemi sem fer fram á svæðinu. Jafnframt og ekki síður að efla samstöðu rekstraraðila á þeirra heimasvæði,“ sagði Birna G. Konráðsdóttir að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir