Heiðar Örn Jónsson varaslökkviliðsstjóri ræðir við gesti. Ljósm. mm.

Fjölmenni mætti á nýliðakynningu slökkviliðsins

Í gærkvöldi stóð Slökkvilið Borgarbyggðar fyrir kynningu á starfseminni. Slökkviliðið þarf að fjölga í hópnum til að ná að fullmanna allar starfsstöðvar og var því vonast eftir að fá nokkra áhugasama með að bjóða upp á kynningu. Mætingin fór hins vegar fram úr björtustu vonum slökkviliðsins, en alls mættu 32 á kynninguna. Bjarni Kristinn Þorsteinsson slökkviliðsstjóri bauð gesti velkomna en því næst fór Heiðar Örn Jónsson varaslökkviliðsstjóri yfir starfsemina og þau skilyrði sem sett eru til inngöngu í slökkviliðið. Heiðar Örn segir að nú séu lausar stöður á öllum starfsstöðvum Slökkviliðs Borgarbyggðar; á Hvanneyri, í Reykholti, á Bifröst og í Borgarnesi. Auk þeirra kynnti Neisti, félag slökkviliðsmanna í Borgarbyggð félagið sitt.

Í dag eru 36 starfandi slökkviliðsmenn í Borgarbyggð. Heiðar Örn segir að brýnt sé að fjölga í hópnum á nokkrum stöðvanna til að hámarka öryggi ef eldsvoði verður eða önnur óhöpp sem slökkviliðsmenn eru kallaðir til. Bæði Heiðar Örn og Bjarni voru hæstánægðir með mætinguna á mánudaginn. Fólk víðs vegar af starfssvæðinu hefði mætt en slíkt væri einmitt styrkleiki fyrir lið í víðfeðmu og stóru héraði til að lágmarka útkallstíma eins og kostur er. Áhugasamir nýliðar geta sótt um inngöngu í slökkviliðið fyrir 8. nóvember næstkomandi og munu þeir gangast undir þrekpróf, lofthræðslukönnun, innilokunarpróf og viðtöl áður en ákvörðun verður tekin um ráðningu.

Sjá einnig myndir frá nýliðakynningu í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir