Sumar í Búðardal. Ljósm. sm.

Covid bylgja gengur yfir í Dölum

Síðasta fimmtudag kom upp grunur um covid smit í Dölunum og voru í kjölfarið allnokkur smit staðfest. Upptökin eru ekki ljós, en nokkrir kennarar og nemendur Auðarskóla í Búðardal eru smitaðir og því hefur allt skólahald legið niðri frá því á fimmtudaginn. Herdís Erna Gunnarsdóttir skólastjóri Auðarskóla sagði í samtali við fréttaritara Skessuhorns að skólinn og leikskólinn verði lokaðir alla þessa viku. Í grunnskólanum eru síðan vetrarfrísdagar í upphafi næstu viku, en enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort leikskólinn verði opnaður aftur eftir helgina, það velti á þróun smita í samfélaginu í Dölunum. Sundlaugin er lokuð, bókasafnið einnig og á dvalarheimilinu Silfurtúni hafa heimsóknarreglur verið hertar og óskað eftir bakvörðum til starfa. Allt íþrótta- og tómstundastarf liggur einnig niðri.

Sýnataka hefur verið mikil á vegum heilsugæslunnar, bæði hraðpróf og einkennasýnatökur, sem var færð úr heilsugæslunni og út í sjúkrabílaskýlið til að lágmarka smithættu. Íbúar hafa mikið spjallað um faraldurinn undanfarna daga á samfélagsmiðlum og fram kemur að heilu fjölskyldurnar eru í sóttkví eða einangrun, heima og heiman. Í Dölunum er samfélagið náið og í raun makalaust að ekki hafi komið upp bylgja smita áður í þessum faraldri.

Samkvæmt upplýsingum á dalir.is eru nú 14 í einangrun í Dalabyggð og 117 í sóttkví.

Líkar þetta

Fleiri fréttir