Verðlaunahafar og fulltrúar sveitarfélagsins. F.v. Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri, Þórhildur Þorsteinsdóttir og Elvar Ólason á Brekku, Margrét Vagnsdóttir formaður umhverfis- og landbúnaðarnefndar, Sigurbjörg Ólafsdóttir handhafi samfélagsviðurkenningar, Bjarni Þór Traustason og Sigrún Ögn Sigurðardóttir í Borgarvík 5, Sigrún Ólafsdóttir og Sigurjón Helgason nefndarmenn í umhverfis- og landbúnaðarnefnd, Heiður Hörn Hjartardóttir á Bjargi og Hrafnhildur Tryggvadóttir starfsmaður umhverfis- og landbúnaðarnefndar. Ljósm. mm.

Verðlaun veitt fyrir fallegt umhverfi og snyrtimennsku

Í gær veitti Borgarbyggð árlegar viðurkenningar í umhverfismálum. Það er umhverfis- og landbúnaðarnefnd sveitarfélagsins sem hefur umsjón með verkefninu; kallar eftir tilnefningum, fer yfir þær og metur áður en verðlaunahafar eru boðaðir til fundar. Sem fyrr voru veitt verðlaun fyrir lóð við íbúðarhús, lóð við atvinnuhúsnæði, snyrtilegt bændabýli auk sérstakrar samfélagsviðurkenningar til einstaklings, hóps eða fyrirtækis sem vakið hafa athygli fyrir störf að umhverfismálum.

Fram kom hjá Margréti Vagnsdóttur, formanni umhverfis- og landbúnaðarnefndar, að á annan tug tilnefninga hafi borist um 15 kandidata til verðlauna. Dómnefnd fór yfir allar innsendar tilnefningar og fór í framhaldi í vettvangsferð á staðina. Í viðurkenningarskyni fengu verðlaunahafar viðurkenningarskjöl en auk þess birkitré frá Grenigerði og gjafapoka frá Ljómalind. Bændabýlið fékk að auki skilti til að festa á vegvísi heim að bænum.

Falleg lóð við íbúðarhús

Í þessum flokki eru það íbúar að Borgarvík 5 í Borgarnesi sem hlutu viðurkenninguna, hjónin Bjarni Þór Traustason og Sigrún Ögn Sigurðardóttir. Í niðurstöðu dómnefndar segir að lóðin sé einstaklega falleg og snyrtileg og öllu vel við haldið. Greinilegt sé að mikil vinna og natni hafi verið lögð í viðhald húss og lóðar. Gróður er fjölbreyttur; trjágróður, fjölæringar og sumarblóm. Heildarsvipur lóðar góður.

Snyrtileg lóð við atvinnuhúsnæði

Í þessum flokki er það Bjarg í Borgarnesi sem hlaut viðurkenninguna. Þorsteinn Arilíusson og Heiður Hörn Hjartardóttir eru ábúendur á Bjargi þar sem þau reka myndarlega ferðaþjónustu. Í niðurstöðu dómnefndar segir að allt umhverfi gistiheimilisins Bjargs sé snyrtilegt, gróðri vel við haldið og tún slegin. Náttúrufegurð á svæðinu og snyrtilegt umhverfi auki á jákvæða upplifun gesta.

Snyrtilegt bændabýli

Í þessum flokki var það Brekka í Norðurárdal sem hlaut viðurkenningu ársins. Þar búa hjónin og bændurnir Elvar Ólason og Þórhildur Þorsteinsdóttir. Um Brekku segir í niðurstöðu dómnefndar að býlið sé myndarlegt og byggingum, sem eru ólíkar að aldri, sé vel við haldið. Hlaðnir túngarðar grípa augað og eru þeir merki um óslitinn þráð búskaparsögu um langan tíma. Auðséð er að búið er í fullum rekstri þar sem ýmis tæki þar að lútandi eru vel sýnileg. Umgengni snyrtileg.

Sigurbjörg hlaut samfélagsviðurkenningu

Loks hlaut Sigurbjörg Ólafsdóttir íbúi við Berugötu í Borgarnesi samfélagsviðurkenningu umhverfis- og landbúnaðarnefndar. Í niðurstöðu dómnefndar segir að Sigurbjörg hafi hreinsað trjábeð meðfram Berugötunni upp á sitt einsdæmi. Trén voru að hverfa í grasi og torfi og því mikil vinna sem hún lagði á sig óumbeðin til að fegra sitt nærumhverfi. Hún hreinsaði beðið meðfram allri götunni (utan lóðamarka) og í samstarfi við sveitarfélagið er nú búið að snyrta tré og skipta um girðingu og ásýnd götunnar hefur batnað til muna.

Í texta sem fylgdi með þessari tilnefningu segir m.a.: „Sigurbjörg Ólafsdóttir í Berugötu hefur unnið þrekvirki í götunni. Algjör hvunndagshetja. Hún byrjaði sl. sumar að höggva upp torf í trjábeðinu meðfram götunni. Trén voru alveg að kvoðna niður – voru ber að neðan og svo smá brúskar efst. Sigurbjörg hjó og flutti torfið burt í hjólbörum. Hún tók svo aftur til við fyrra verk nú í vor og hefur haldið áfram í allt sumar og oft langt fram á kvöld. Hún hefur örugglega flutt fleiri hundruð hjólbörufarma burt úr beðinu. Hún hefur nú lokið verkinu alveg frá Berugötu 12 – að Berugötu 30 (öll gatan). Nágrannar hafa dáðst að henni og undrast atorku hennar. Hún fékk Ámunda Sigurðsson í áhaldahúsinu til að saga niður runnana – með samþykki allra í götunni, því hún sá að niðri í moldinni undir öllu torfinu leyndust angar af lifandi greinum. Kurl verður sett í beðin. Gatan er allt önnur. Enn fylgist Sigurbjörg með beðinu og hreinsar upp eltingu og fleira sem skýtur upp kollinum hér og þar. Hún á aldeilis skilið viðurkenningu frá Borgarbyggð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir