Seint í gærkvöldi var búið að ryðja braut í gegnum hauginn. Ljósm. kj.

Óvarlega var staðið að sprengingum í Fossabrekku

Nú er unnið við efnistöku fyrir væntanlega vegagerð innarlega í Skorradal í Borgarfirði. Verktaki er Þróttur en undirverktaki við efnisvinnsluna er Borgarvirki. Efnið er m.a. sótt í klappir í Fossabrekku, sem er milli bæjanna Syðstu-Fossa í Andakíl og Hálsa í Skorradal. Eftir að myrkur skall á í gærkvöldi var unnið við sprengingar við veginn og virðist sem reglur um verklag við slíkar framkvæmdir hafi verið brotnar. Lögreglu var til að mynda ekki gert viðvart, veginum var ekki lokað né settar upp viðvaranir og nágrannar heldur ekki varaðar við. Svo öflug var sprengingin að sumir nágrannanna héldu hreinlega að stífla Andakílsár hefði brostið. Í sprengingunni fór mikið af stórgrýti yfir veginn og lokaði honum. Vegfarendur sem leið áttu um gátu því ekki áttað sig á hættunni og óku utan í grjót á veginum. Þeir sluppu blessunarlega við meiðsli en var mjög brugðið. Seint í gærkvöldi, eftir að lögreglu og Vegagerð hafði verið gert viðvart, var rudd rás í veginn og settar upp merkingar. Í nótt var svo unnið við að fjarlægja marga rúmmetra af grjóti af veginum. Lögreglan á Vesturlandi fer með rannsókn málsins.

Þvínæst voru settar upp merkingar, en vegurinn hreinsaður í nótt. Ljósm. pd.

Líkar þetta

Fleiri fréttir