Forsíða bókar Stefáns Jökulssonar sem segir ævisögu Hallbjargar.

Minnast Hallbjargar með tónleikum á Vökudögum

Rótarýklúbbur Akraness og Tónlistarskóli Akraness minnast Hallbjargar Bjarnadóttur með tónleikum sem fara fram á Vökudögum á Akranesi fimmtudaginn 4. nóvember næstkomandi. Í byrjun þessa árs fékk Rótarýklúbbur Akraness styrk úr verkefnasjóði Rótarý á Íslandi. Styrkurinn er til að kosta tónleika til minningar um Hallbjörgu Bjarnadóttur söngkonu. „Hallbjörg var frumkvöðull í djasstónlist á Íslandi. Rödd hennar vakti athygli víða um lönd og hún starfaði í Bandaríkjunum, Danmörku og í fleiri Evrópulöndum. Kom hún meðal annars fram á tónleikum í Royal Albert Hall í London 1947. Hér á landi muna líklega flestir eftir flutningi hennar á eigin lögum við „Vorvísu“ Jóns Thoroddsen og ljóðið „Björt mey og hrein“ eftir Stefán Ólafsson frá Vallanesi.

Hallbjörg fæddist árið 1917. Foreldrar hennar fluttu með hana barnunga á Akranes. Þröngt var í búi hjá þeim og skömmu síðar komu þeir henni í fóstur hjá hjónunum Kristínu Jónsdóttur og Jóni Ólafssyni sem bjuggu að Brunnastöðum. Það hús stendur enn við Laugarbraut og er númer 19, sem sagt fjórða húsið í norðaustur frá tannlæknastofunni. Þar átti hún heima fram yfir fermingu en snemma á unglingsárum fór hún fyrst til Reykjavíkur og svo til Danmerkur í leit að tækifærum til að syngja og læra söng. Þótt veran í Danmörku byrjaði á tómu brauðstriti, mest við eldamennsku og þrif, reis frægðarsól Hallbjargar hratt þar í landi og vel fyrir tvítugt var hún byrjuð að koma fram á tónleikum í Kaupmannahöfn.

Stefán Jökulsson skráði ævisögu Hallbjargar eftir frásögn hennar sjálfrar. Bókin kom út 1989 og heitir Hallbjörg eftir sínu hjartans lagi. Þar segir frá bernsku hennar á Akranesi (á bls. 41): „Ég var hávær að öllu leyti ef ég á annað borð opnaði munninn. Og hann var oft opinn því ég var alltaf syngjandi. En mér nægði ekki að syngja og tralla eins og börn gera sjálfum sér til yndisauka. Ég vildi syngja fyrir fólk, syngja fyrir áheyrendur. Ég opnaði alla glugga heima á Brunnastöðum upp á gátt og söng hástöfum svo fólk heyrði í mér. Og það heyrðist í mér! Þegar vindátt var mér í hag barst söngurinn langar leiðir.“

Í sömu bók segir frá því að bæði fyrir og eftir seinni heimsstyrjöld bjó Hallbjörg í útlöndum en hún var hér á Íslandi á stríðsárunum og söng bæði fyrir landa sína og fjölda hermanna sem hingað komu frá Bretlandi og Bandaríkjunum: „Ég söng alltaf fyrir fullu húsi en margir voru á móti djasstónlist… Til blaðanna bárust lesendabréf… Ég man til dæmis eftir bréfi frá „söngelskri húsmóður“ sem fáraðist yfir þessari samviskulausu söngkonu sem vildi hefja „frumskógamúsík“ til virðingar. Svo bætti þessi svokallaða söngkona gráu ofan á svart með því að „dilla sér“ meðan hún kyrjaði þennan ósóma.“

Tónleikarnir til minningar um Hallbjörgu verða fimmtudaginn 4. nóvember klukkan 20 í Tónbergi, sal Tónlistarskólans á Akranesi. Fram koma Andrea Gylfadóttir, Brynja Valdimarsdóttir, Jónína Björg Magnúsdóttir, Þorleifur Gaukur Davíðsson, Eðvarð Lárusson, Óskar Þormarsson, Valdimar Olgeirsson og nemendur Tónlistarskóla Akraness. Kynnir verður útvarpsmaðurinn vinsæli, Ólafur Páll Gunnarsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir