Horft austur að Heiðarborg frá grunnskólanum. Ljósm. arg.

Ask arkitektar sjá um hönnun á íþróttahúsi í Hvalfjarðarsveit

Búið er að semja við Ask arkitekta um hönnun á nýju íþróttahúsi í Hvalfjarðarsveit. Málið er enn á frumstigi og að sögn Lindu Bjarkar Pálsdóttur, sveitarstjóra í Hvalfjarðarsveit, á enn eftir að taka margar ákvarðanir áður en formlegar framkvæmdir geta hafist. „Þetta er enn á frumstigi og við eigum til dæmis eftir að taka ákvörðun um stærð á húsinu og hvað verður í því,“ segir Linda. Íþróttahúsið verður staðsett vestan við íþróttasalinn í Heiðarborg en að sögn Lindu mun það íþróttahús einnig standa áfram. „Það er ekki ætlunin að rífa Heiðarborg. Það var gerð úttekt á því húsi sem leiddi í ljós að það er bara gott ástand á íþróttasalnum í Heiðarborg,“ segir Linda.

Að sögn Hlyns Sigurdórssonar, verkefnastjóra framkvæmda og eigna í Hvalfjarðarsveit, á allri hönnunarvinnu að vera lokið í júní á næsta ári og útboðsgögn að vera tilbúin. „Samkvæmt fyrstu tillögu verður húsið samtengt við Heiðarborg og ætlunin er að hafa stóran íþróttasal með áhorfendapöllum og einnig gott rými fyrir iðkendur og starfsfólk. En þetta er allt enn á frumstigi og við eigum eftir að fjalla um þetta betur og fá tillögur frá fólki hér í sveitinni. Þetta er bara rétt að komast á skrið,“ segir Hlynur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir