Frá viðburði í Hörpu á síðasta ári þegar Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi, afhenti viðurkenningar fyrir Framúrskarandi fyrirtæki.

Sex ný fyrirtæki á Vesturlandi á úrvalslista Creditinfo

Rétt rúm fimm prósent fyrirtækja á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki ársins eru á Vesturlandi, eða 43 af 853. Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki eru áberandi á listanum, en annars er um að ræða fjölbreytt fyrirtæki af margvíslegum toga; stór, meðalstór og lítil. Fimm efstu sæti listans á Vesturlandi eru öll í flokki stórra fyrirtækja, en þau skipa Borgarverk í Borgarnesi, sem er í 92. sæti á heildarlista Framúrskarandi fyrirtækja, Hraðfrystihús Hellissands (í 101. sæti), útgerðin Runólfur Hallfreðsson ehf. (133. sæti) og Sementsverksmiðjan á Akranesi (207. sæti), og svo útgerðarfyrirtækið Sæfell í Stykkishólmi í 219. sæti.

Eitt fyrirtækjanna 43 á Vesturlandi hefur átt sæti á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki allt frá upphafi, en það er jarðvinnuverktakafyrirtækið Bjarmar ehf. á Akranesi. Þá koma sex fyrirtæki ný inn á listann; Fiskmarkaður Snæfellsbæjar í Ólafsvík, Telnet, Eðallagnir og Oliver á Akranesi, Guðmundur Runólfsson hf. Grundarfirði og verktakafyrirtækið Kolur í Búðardal.

Stöðugur rekstur í þrjú ár

Creditinfo birti í dag lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki á landinu öllu fyrir rekstrarárið 2020. Þetta er í tólfta sinn sem fyrirtækið veitir Framúrskarandi fyrirtækjum á landinu viðurkenningu og verða þær veittar í Hörpu kl. 16 í dag. Í ár eru 853 fyrirtæki á listanum eða um 2% allra virkra fyrirtækja á Íslandi. Skráningum á listann fjölgar lítillega á milli ára en á sama tíma í fyrra voru 842 fyrirtæki á listanum. „Rétt er að árétta að til ársloka geta enn bæst fyrirtæki á listann. Samsetning listans getur breyst nokkuð á milli ára, en til að teljast til Framúrskarandi fyrirtækja þurfa fyrirtæki að uppfylla ströng skilyrði um stöðugan rekstur þrjú ár aftur í tímann. Fyrirtæki raðast á listann eftir ársniðurstöðu, en í ár vermir Marel efsta sæti listans. Fyrirtækið hefur nú verið á lista Framúrskarandi fyrirtækja samfleytt frá árinu 2013. Í öðru sæti er Eyrir Invest sem kom nýtt inn á lista 2019 og í því þriðja Landsvirkjun, sem setið hefur á listanum frá árinu 2018,“ segir í tilkynningu frá Creditinfo.

Þá segir að það sem einkenni listann í ár er að byggingafyrirtækjum fjölgar líkt og í fyrra og eru nú orðin 127 talsins. Fyrirtækjum sem flokkast undir ferðaþjónustu fækkar verulega á listanum, eða úr 70 fyrirtækjum í lok síðasta árs niður í 23 núna. Fækkunin er vegna áhrifa Covid-19 faraldursins og tilheyrandi fækkunar ferðamanna. Þá fjölgar fyrirtækjum í sjávarútvegi úr 60 í 69.

Líkar þetta

Fleiri fréttir