Staðastaður á Snæfellsnesi.

Lagt til að prestum fækki um einn á Snæfellsnesi

Fyrir kirkjuþingi, sem hefst á laugardaginn og lýkur um miðja næstu viku, liggja tillögur um að fækka prestum á landsbyggðinni um tíu og hálft stöðugildi. Á sama tíma er lagt til að stöðugildum verði fjölgað í eystra Reykjavíkurprófastsdæmi og Kjalarnesprófastsdæmi og dregið nokkuð úr sérþjónustu presta. Lagt er til að fækkað verði um eitt stöðugildi á Snæfellsnesi sem er hluti Vesturlandsprófastsdæmis. Ólafsvíkur- og Ingjaldshóls-, Setbergs-, Staðastaðar- og Stykkishólmsprestaköll verði sameinuð í eitt prestakall þar sem sóknarprestur og tveir prestar þjóna. Syðstu sóknir Staðastaðarprestakalls verði færðar undir prestakallið á Borg á Mýrum og samkvæmt því er verið að leggja til að starf sóknarprests á Staðastað verði lagt niður.

Í Garða- og Saurbæjarprestakalli eru sóknarprestur og tveir prestar og eru ekki lagðar til breytingar á því fyrirkomulagi. Þá er lagt til að Borgar-, Reykholts- og Stafholtsprestaköll verði sameinað í eitt prestakall þar sem sóknarprestur og tveir prestar þjóna. Í Dalaprestakalli er einn sóknarprestur. Prestakallið hefur skyldur við Breiðafjarðar- og Strandaprestakall ásamt stoðþjónustu farprests og því er varpað fram spurningu um að prestakallið ætti allt eins og falla undir Vestfjarðaprófastsdæmi. Samkvæmt tillögum sem liggja fyrir kirkjuþingi verða fjórir sóknarprestar og sex prestar starfandi í Vesturlandsprófastsdæmi eftir breytingarnar, verði þær samþykktar, en einn þeirra gegnir auk þess prófastsskyldum. Stöðugildi verði tíu og fækki um eitt.

Tillögur þessar eru lagðar fram til að bregðast við hallarekstri kirkjunnar og breytingum á búsetu landsmanna. Er talið að miðað við tekjur kirkjunnar verði unnt að halda úti 135 stöðugildum presta á landinu en þau eru í dag um 145. Einnig á að ná fram hagræði með sameiningu prestakalla. Loks er lagt til að ráðningarbann sem aukakirkjuþing samþykkti fyrr á þessu ári og átti að gilda fram í nóvember verði framlengt til áramóta.

Líkar þetta

Fleiri fréttir