Unnið að undirbúningi fyrir kosningabaráttu. Ljósm. aðsend.

Gengið var til kosninga í Grundaskóla

Á miðvikudaginn í liðinni viku gengu kennarar og foreldrar barna í 10. bekk í Grundaskóla á Akranesi til kosninga eftir harða kosningabaráttu. Kosningarnar voru hluti af verkefni 10. bekkjar þar sem nemendur skiptu sér í hópa og stofnuðu stjórnmálaflokka. Krakkarnir settu upp veglegar stefnuskrár með þeim málum sem þeir vildu setja á oddinn. Þau vildu til dæmis taka betur á málum þolenda ofbeldis, bæta heilbrigðiskerfið, taka á loftlagsvandanum og fleira en auk þess settu þau fram sínar skattahugmyndir og fleira sem máli skiptir í lýðræðisríki. Að sögn Írisar Aðalsteinsdóttur, kennara í 10. bekk, tóku krakkarnir þetta verkefni með trompi. „Ég held að þetta verkefni sýni vel hvað krakkarnir er að hugsa og hvað brennur á þeim að þurfi að laga í þjóðfélaginu okkar,“ segir Íris í samtali við Skessuhorn.

Kosningavaka

Krakkarnir skreyttu og buðu upp á veitingar.

Krakkarnir fengu frjálsar hendur með að skipta sér niður í hópa en að lágmarki sex þurftu að vera í hverjum flokki. Alls stofnuðu þau sjö sex til tólf manna flokka en einn hópurinn tók að sér fjölmiðlahlutverk. „Fjölmiðlahópurinn stofnaði fréttamiðilinn Tindafréttir á Instragram. Þar sáu þau um að taka viðtöl við frambjóðendur og fylgja eftir kosningabaráttunni,“ segir Íris. Flokkarnir stofnuðu heimasíður eða aðgang á Instagram fyrir framboðin sín þar sem þau kynntu flokkana og málefnin. Þau gerðu kynningarmyndbönd, fundu nöfn á flokkana, hönnuðu merki og röðuðu fólki á lista. Kosningabaráttan var hörð og ljóst að foreldrar og kennarar áttu erfitt verk fyrir höndum í kjörklefanum á miðvikudeginum. Að morgni fimmtudags var haldin kosningavaka á Útgerðinni á Akranesi þar sem sigurvegarar voru kynntir. Að sögn Írisar var mikil stemning á Útgerðinni þennan morguninn. Verkefninu lauk svo með jafningjamati. „Nemendurnir voru látnir meta verkefnin, hvað gekk vel, hvað var skemmtilegast og svoleiðis. Flokkarnir ræddu svo saman til að komast að niðurstöðu sem þau skiluðu inn. Við vorum öll ofsalega ánægð með þetta verkefni, það heppnaðist mjög vel. Krakkarnir voru fagleg í stefnuskrá og mjög málefnaleg í sinni baráttu,“ segir Íris.

Lepidoptera

Sigurvegari kosninganna var flokkurinn Lepidoptera. Í stefnuskrá flokksins kom fram að hann vill stækka sjúkrahús, leyfa innflytjendum að búa á Íslandi og ekki senda fólk í burt sem hefur búið hér lengi og á börn. Flokkurinn vill betra félagslíf í skólum og fjölga íþróttum á Íslandi, passa að öll börn og fullorðnir fái hjálp ef þeim líður illa eða hafa orðið fyrir ofbeldi. Lepidoptera vill að hætt verði að selja vörur sem eru prófaðar á dýrum eða sem eru gerðar með því að drepa dýr, að fangelsisdómar verði lengri og að mál taki styttri tíma í kerfinu. Þá ætlar flokkurinn að passa að ekki verði byggðar fleiri verksmiðjur og að gerðir verði fleiri hjólastígar og að frítt verði í strætó.

Líkar þetta

Fleiri fréttir