Mikil matarveisla framundan á Vesturlandi

Veisluhöld og matarhátíð Vesturlands er handan við hornið, en um er að ræða þrískipta viðburðadagskrá sem er hluti af áhersluverkefni Sóknaráætlunar og Áfangastaðaáætlunar „Matarauður Vesturlands“. Allan nóvembermánuð verður haldið úti viðburðadagatali; „Veisla á Vesturlandi“ þar sem matvælaframleiðendur eða veitingaaðilar í landshlutanum eru hvattir til að skrá sig og taka þátt. Til dæmis með því að bjóða upp á popup viðburði, sérstök tilboð af matseðli eða matvöru eða annað skemmtilegt sem tengist vestlenskum mat. Viðburðirnir eða tilboðin og þeir aðilar sem að þeim standa verða þá kynntir á vefsíðunni matarhatid.is. „Þessir viðburðir geta í raun verið hvað sem er sem tengist mat og matarmenningu á Vesturlandi, til dæmis villibráðarkvöld eða önnur tilbreyting á veitingahúsi, sagnakvöld, eða söngdagskrá sem tengist mat, tilboð á vestlensku grænmeti í búðinni, kynningar, fyrirlestur eða námskeið eða eitthvað allt annað,“ segir Margrét Björk Björnsdóttir, sviðsstjóri Áfangastaða- og Markaðssviðs SSV í samtali við Skessuhorn. Það fer allt eftir því hverjir skrá sig á viðburðadagskrána og hvað þeir ætla að gera skemmtilegt til að lífga upp á tilveruna og gleðjast yfir góðum mat á Vesturlandi.

Annar hluti viðburðarins er Matarhátíð á Hvanneyri sem haldin verður laugardaginn 13. nóvember milli klukkan 13 og 17. Þar verður boðið upp á matarmarkað og aðra skemmtilega viðburði. Allir matvælaframleiðendur eru hvattir til að skrá sig á matarmarkaðinn til að selja sína vöru, svo gestir fái sem fjölbreyttast matarframboð og kynningu á vestlenskum mat, skráningarblöð liggja inni á vefsíðunni matarhátid.is

Þriðji liður viðburðarins er Askurinn, viðurkenning fyrir þá sem hafa verið að vinna vel að framgangi íslenskra matvæla. „Veittar verða viðurkenningar í þremur flokkum og köllum við eftir tilnefningum alls staðar að,“ segir Margrét Björk. Fyrsti flokkurinn er tileinkaður nýsköpun, og þar er upplagt að tilnefna aðila sem hafa komið að stofnun eða þróun nýrra hugmynda sem tengjast matvælaframleiðslu. Getur þessi flokkur átt við um einstakling, hóp eða félag sem hefur staðið fyrir eða stutt við nýsköpun í íslenskri matvælagerð. Annar flokkurinn er hvatning, fyrir þá sem eiga eða hafa átt farsælan feril í matvælageiranum. Þetta gæti átt við bændur sem framleiða matvæli eða veitingastað sem framreiðir matinn, og allt þar á milli. Síðasti flokkurinn er arfleiðin, fyrir þá sem hafa haft áhrif á hvernig við kunnum að meta íslenskan mat, hafa komið honum á framfæri eða komið fólki í kynni við mat. Þessi viðurkenning er fyrir einhvern sem hefur tekið þátt í að efla íslenskra matvælagerð og framleiðslu.

Til þess að skrá sig til þátttöku í Veislu á Vesturlandi í nóvember eða að taka þátt í sölumarkaði á matarhátíðina á Hvanneyri laugardaginn 13. nóvember, er hægt að fara inn á matarhatid.is og skrá þátttöku. Þá er einnig hægt að fara þangað inn til að fylgjast með þeim viðburðum sem í boði verða í matarveislu nóvembermánaðar á Vesturlandi. Auk þess sem viðburðadagskráin og þeir sem að henni standa verða kynntir á samfélagsmiðlum og öðrum fréttamiðlum. Til þess að tilnefna verðuga aðila til að hljóta viðurkenningu Asksins er hægt að fara inn á askurinn.is og senda inn tilnefningu.

„Allir eru svo velkomnir og hvattir til að taka þátt, dvelja og njóta á matarhátíð og veislu á Vesturlandi í nóvember,“ segir Margrét að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir