Bíll Hlédísar Sveinsdóttur eftir að sement fauk á hann 5. janúar á þessu ári.

Lítið gerst varðandi bætur vegna sementsfoks

Þeir íbúar á Akranesi sem urðu fyrir tjóni þegar mikið magn sements slapp út í loftið og lagðist yfir nærliggjandi götur, hús og bíla, í byrjun árs eru margir orðnir langþreyttir á biðinni eftir upplýsingum um raunverulegt tjón af völdum sementsins og sanngjörnum bótum. Í byrjun þessa árs lýsti Sementsverksmiðjan yfir ábyrgð á því óhappi sem varð við dælingu sements aðfararnótt 5. janúar og kom svo yfirlýsing til tjónþola frá VÍS í kjölfarið þar sem viðurkennd var bótaskylda vegna tjónsins. Fjölmargir íbúar á Akranesi, sem tilkynntu tjón sitt til VÍS vegna óhappsins, hafa nú þegar leitað réttar síns til lögmanna þar sem þeir segjast hafa lítil sem engin viðbrögð fengið frá tryggingarfélaginu, þrátt fyrir loforð.

Blaðamaður Skessuhorns bar þá gagnrýni sem fram hefur komið undir Erlu Tryggvadóttur, samskiptastjóra VÍS, sem vildi í fyrsta lagi koma á framfæri þökkum til íbúa Akraness fyrir þolinmæði við vinnslu á málinu. Þá þakkar hún jafnframt bæjarbúum fyrir samvinnu fyrir hvað þrifin gengu hratt og vel. Erla segir að gengið hafi verið beint til verks í upphafi með því að þrífa þau hús og bíla sem urðu fyrir sementsfokinu og náð þannig að koma í veg fyrir frekari tjón. Hún tekur fram að meirihluti þeirra mála sem komu upp vegna sementsfoks á fasteignir sé lokið. Staðreyndin sé hins vegar sú, að nokkur mál standa ennþá eftir og hefur VÍS fengið óháðan matsmann til þess að fara yfir þau mál. Von sé á niðurstöðu á þeirri vinnu á næstu dögum.

Nánar er fjallað um málið í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir