Undirbúnings kjörbréfanefnd á fundi sínum á Hótel Borgarnesi 19. október síðastliðinn. Ljósm. mm.

Inngangar á talningarstað voru vaktaðir en ekki kjörgögnin

Björn Leví Gunnarsson alþingismaður Pírata, sem sæti á í undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar Alþingis, skrifar í morgun grein í Morgunblaðið þar sem hann lýsir vettvangsferð nefndarinnar í Borgarnes í gær. Hana fór nefndin til að kanna af eigin raun aðstæður á talningarstað í NV kjördæmi, skoða kjörgögn og fá að tala við þá sem báru ábyrgð á talningu atkvæða á kosninganótt. „Gærdagurinn var einn mikilvægasti dagurinn í rannsókn nefndarinnar en ítarlega hafði verið unnið að undirbúningi dagsins,“ skrifar þingmaðurinn.

Ýmsum spurningum ósvarað

Björn Leví Gunnarsson.

Þá ræðir Björn Leví um að undanfarnar alþingiskosningar séu fordæmalausar og því miður sé lagaramminn einfaldlega ekki nægilega skýr til þess að leiðbeina nefndinni nákvæmlega hvað á að gera og hvernig eigi að fara að því. „Sérfræðingar á sviði stjórnsýslu og stjórnskipunar hafa mætt á opna fundi nefndarinnar og farið yfir helstu atriðin sem þarf að hafa í huga – og álitaefnin, þar eru fjölmörg. Eitt af atriðunum sem varð til dæmis augljóst eftir ferðina í gær var að myndavélar vakta alla innganga í salinn sem geymdi kjörgögnin. Það ætti að þýða að það sé að minnsta kosti skýrt að við vitum hverjir fóru inn í salinn og hvenær það gerðist. Aftur á móti sýna myndbandsupptökur ekki hvað þau sem fóru inn í salinn með kjörgögnunum tóku sér fyrir hendur í salnum – og því ýmsum spurningum enn ósvarað.“

Ónotaðir seðlar stemma

Þá rekur þingmaðurinn að í gær hafi verið taldir ónotaðir atkvæðaseðlar en allir kjörstaðir fá fleiri atkvæðaseðla en þeir þurfa. „Það vill enginn að atkvæðaseðlarnir á kjörstað klárist óvart af því að fleiri mættu til að kjósa en búist var við. Ónotaðir atkvæðaseðlar eru svo sendir til baka með greiddum atkvæðum, sérstaklega innsiglaðir og taldir. Á talningarstað er svo einnig gengið úr skugga um að fjöldi atkvæða, notaðra og ónotaðra seðla, stemmi. Það þurfti að telja ónotaða seðla af því að til þess að komast að því hvað gerðist á kosninganótt þá þurfum við að hugsa um hvernig mögulega væri hægt að breyta niðurstöðum. Af því að kjörgögn voru óinnsigluð í talningarsalnum yfir nóttina þá hefði verið hægt að breyta niðurstöðum með því að henda einhverjum notuðum seðlum og búa til ný atkvæði úr ónotuðum. Með því að telja þá útilokum við að minnsta kosti þann möguleika,“ skrifar Björn Leví, en því má bæta við að staðfest var í gær að fjöldi ónotaðra kjörseðla stemmir við þá tölu sem þeir áttu að vera.

„Gloppurnar eru margar“

„Eftir standa þó að fjölmargar aðrar leiðir eru til að spilla kjörgögnum, og er það verkefni nefndarinnar að rannsaka hvort eitthvað slíkt kunni að hafa verið raunin. En þá eru eftir stórar spurningar sem nefndin þarf að taka afstöðu til. Meðal þeirra er spurningin um hvort yfirhöfuð sé hægt að byggja á kjörgögnum úr Norðvesturkjördæmi. Þetta er því margþættur vandi sem við stöndum frammi fyrir. Hvort það tekst að útiloka öll vafaatriðin er óljóst eins og er en nefndin hefur hingað til reynt að gera hvað sem í hennar valdi stendur til þess að komast til botns í þessu máli. Gloppurnar eru margar og óvíst hverjar af þeim verður hægt að stoppa upp í. Kannski ekki allar. Hvað þá? Líklega mun málið að lokum snúast um traust. Traust á stjórnmálum,“ skrifar Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata.

Líkar þetta

Fleiri fréttir