Farið um borð í nýjan strætó á leið í Borgarnes. Ljósm. arg.

Fyrsta ferðin í samþættu leiðarkerfi fór af stað í gær

Tilraunaverkefni í samþættu leiðarkerfi í Borgarbyggð hófst með formlegum hætti í gærmorgun þegar fyrsta ferð var farin frá Kleppjárnsreykjum niður í Borgarnes, með viðkomu á Hvanneyri. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi fengu tólf milljóna króna í styrk til tveggja ára frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu til að koma verkefninu í framkvæmd en um er að ræða samstarfsverkefni Borgarbyggðar, SSV, Menntaskóla Borgarfjarðar og Vegagerðarinnar. Til að verkefnið gæti gengið upp gerði Borgarbyggð breytingar á reglum um skólaakstur svo aðrir en grunnskólabörn geti farið með skólabílunum. Þá bættu Vegagerðin og Strætó við leiðum í leiðarkerfinu sínu, leið 63 og 64 sem aka mun frá Kleppjárnsreykjum og Varmalandi niður í Borgarnes alla morgna og leið 81 sem fer síðdegis frá Borgarnesi í uppsveitir Borgarbyggðar.

Til þess að nýta sér þjónustuna getur fólk haft samband við skólabílstjóra og pantað ferð að Kleppjárnsreykjum eða Varmalandi. Þaðan er hægt að fara yfir í strætó sem ekur frá báðum stöðum alla virka morgna kl. 8:20. Vagninn sem fer frá Kleppjárnsreykjum kemur við á Hvanneyri og vagninn sem fer frá Varmalandi stoppar við Baulu. Þá geta íbúar á Mýrum nýtt þjónustuna með að panta ferð með skólabílstjórum í Borgarnes.

Breytir miklu fyrir nemendur í sveitinni

María Ásgeirsdóttir frá Þorgautsstöðum í Hvítársíðu segir þessa nýju leið koma til með að breyta heilmiklu fyrir hana og foreldra hennar sem hafa ekið henni í skólann.

Eins og fyrr segir var fyrsta ferðin farin í gærmorgun og blaðamaður Skessuhorns var með í för auk þess sem Bragi Þór Svavarsson skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar, Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri Borgarbyggðar og Páll Brynjarsson framkvæmdastjóri SSV, voru einnig með. Þrír nemendur MB fóru af stað frá Kleppjárnsreykjum, tveir bættust við á Hvanneyri og þá var stoppað við Skeljabrekku til að taka upp einn nemanda vil viðbótar. Bragði Þór bauð öllum upp á konfekt á leiðinni, enda gríðarlega mikilvæg þjónusta fyrir íbúa sveitarfélagsins sem ástæða er til að fagna.

Einn nemendanna í þessari fyrstu ferð var María Ásgeirsdóttir frá Þorgautsstöðum í Hvítársíðu. Sagði hún í samtali við blaðamann að þessi kostur breyti heilmiklu fyrir hana og foreldra hennar. María er á fyrsta ári í MB og ekki komin með bílpróf. Foreldrar hennar hafa því þurft að keyra Maríu í skólann alla morgna, sem er um hálftíma akstur hvora leið. Þá hafa þau einnig þurft að sækja hana eftir skóla. „Ég mun nota þetta eins mikið og ég get. Þetta auðveldar okkur mjög mikið,“ segir María og bætir því við að foreldrar hennar séu bændur og vinni heima. „Þau voru því alltaf bara að keyra sérstaklega til að fara með mig í skólann,“ segir hún.

Nánari upplýsingar um verkefnið og svör við ýmsum spurningum má finna á vef Borgarbyggðar undir „þjónusta“.

Líkar þetta

Fleiri fréttir