Byrjað að breyta tanki í íbúðarhús

Í sumar var hafist handa við að breyta olíutanki í útjaðri Rifs í Snæfellsbæ í íbúðarhúsnæði. Eins og fram kom í frétt Skessuhorns í sumar standa þau Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt og Þórir Gunnarsson matreiðslumaður á bakvið verkefnið.

Góður gangur er í framkvæmdunum en búið er að brenna fyrir gluggum og hurð og koma bæði gluggunum og hurðinni fyrir á sínum stað. Byrjað er að gera klárt til að hægt verði að klæða tankinn að utan. Ekki er hægt að segja að smiðirnir séu lofthræddir en þeir voru að vinna við að klæða og einangra tankinn að ofan þegar ljósmyndari var á svæðinu. Voru þeir allir í öryggislínu enda veður ekki upp á það besta; strekkings vindur að norðaustan. B.Vigfússon var einnig á svæðinu. Voru starfsmenn fyrirtækisins að koma fyrir rotþró á lóðinni ásamt því að keyra efni í hana.

Líkar þetta

Fleiri fréttir