Viðra hugmynd um stóra sameiningu á Snæfellsnesi

Eins og fram hefur komið í fréttum hafa sveitarstjórnir Eyja- og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar samþykkt að hefja formlega viðræður um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna og stýrir RR ráðgjöf ehf. því ferli. En það eru fleiri viðræður framundan, en nú að frumkvæði Grundfirðinga.

Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðar 22. september síðastliðinn var samþykkt að bjóða öðrum sveitarfélögum á Snæfellsnesi til óformlegs samtals; „þar sem rætt væri um stöðu og valkosti í sameiningarmálum ef horft er til framtíðar. Eins og fram kemur í bókun bæjarstjórnar er samtalið á engan hátt skuldbindandi fyrir neinn þátttakanda,“ skrifaði Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar í bréfi sem hún sendi Eyja- og Miklaholtshreppi, Helgafellssveit, Stykkishólmsbæ og Snæfellsbæ 24. september síðastliðinn. Nú hafa borist jákvæð viðbrögð við erindinu frá öllum fjórum sveitarfélögunum. Björg bæjarstjóri upplýsti á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku að stefnt sé að fyrrnefndum fundi um næstu mánaðamót.

Í rökstuðningi bæjarstjórnar Grundarfjarðar um hugsanlega sameiningu segir meðal annars: „Á Snæfellsnesi eru fimm sveitarfélög með rétt um 4.000 íbúa. Svæðið er afmarkað, atvinnulíf og samfélög eiga margt sameiginlegt. Sveitarfélögin hafa um langt skeið átt með sér farsæla samvinnu um mikilvæga opinbera þjónustu og um önnur verkefni sem styrkt hafa samfélögin og svæðið sem heild. Ef Snæfellsnes yrði eitt sveitarfélag myndi það án efa hafa mikla þungavigt hvað varðar hagsmuni og þjónustu. Auðveldara væri fyrir svæðið að grípa og nýta tækifærin sem felast í svæðinu og auðlindum þess.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir