Undirbúnings kjörbréfanefnd á fundi sínum á Hótel Borgarnesi 19. október síðastliðinn. Ljósm. mm.

Undirbúningsnefnd lokaði að sér á hótelinu klukkan 13

Í hádeginu í dag kom undirbúningsnefnd Alþingis fyrir rannsókn kjörbréfa saman til fundar í Borgarnesi undir stjórn Birgis Ármanssonar formanns. Að lokinni skoðun á húsakosti á hótelinu var fundinum lokað fyrir fjölmiðlafólki sem var á svæðinu. Gert er ráð fyrir að fundurinn standi fram eftir degi og jafnvel til kvölds. Meðal annars ræðir þingnefndin við fulltrúa úr yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis og starfsfólk Hótels Borgarness. Að sögn Birgis Ármannssonar formanns undirbúningsnefndar er heimsóknin í Borgarnes liður í því að safna upplýsingum, áður en nefndin skilar skýrslu sinni um gildi kjörbréfa. Vildi Birgir, í viðtali við fjölmiðla í hádeginu, ekki kveða úr um hvenær nefndin skilar af sér. Það verði þó í fyrsta lagi í næstu viku.

Hluti nefndarinnar kom saman í morgun til að fylgjast með fulltrúum úr yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis og frá sýslumanninum á Vesturlandi telja ónotaða atkvæðaseðla frá þingkosningunum 25. september. Kjörseðlarnir höfðu verið geymdir í innsiglaðri fangageymslu á lögreglustöðinni í Borgarnesi frá því daginn eftir kjördag. Ákveðið hafði verið að telja seðlana til að stemma fjölda þeirra af við fjölda þeirra sem voru notaðir í kosningunum. Birgir Ármannsson sagði í samtali við Skessuhorn rétt fyrir fundinn að væntanlega verði upplýst þar hvort fjöldi ónotaðra kjörseðla stemmdi við þann fjölda sem átti að vera.

Líkar þetta

Fleiri fréttir