Sitthvað sem þarf að bæta hjá slökkviliðinu

Starfsmenn Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) gerðu 6. september síðastliðinn úttekt á tækjum, búnaði og aðstöðu Brunavarna Dala, Reykhóla og Stranda bs í Búðardal. Var niðurstaða þeirrar skoðunar kynnt á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar í síðustu viku. Þar var slökkviliðsstjóra falið að gera umsögn um úttekt HMS ásamt tímasettri áætlun um úrbætur. Frá slökkviliðsstjóra fari úttektin til umfjöllunar í byggðarráði.

HMS sendi leiðbeiningar um það sem betur má fara. Gerðar voru misalvarlegar athugasemdir í skýrslunni. Meðal annars var bent á að slökkviliðsstöðvar þurfa að uppfylla kröfur um kaffistofur, snyrtingar og böð. Slökkvistöðin í Búðardal uppfyllir ekki slíkar kröfur þar sem engin starfsmannaaðstaða er til staðar. Einnig er plássið í kringum dælubifreið takmarkað. Þá hefur slökkviliðið ekki yfir mengunarvarnabúnaði að ráða né eiturefnagöllum og ekki hefur verið gerður samstarfssamningur við annað slökkvilið um viðbrögð ef mengunaróhapp verður. Þá er brunavarnaáætlun ekki til staðar. Gerðar voru athugasemdir við að aðeins hluti slökkviliðsmanna hafa farið í reglubundna læknisskoðun og engir hafa farið í reglubundið þol- eða styrktarpróf. Loks hafa slökkviliðsmenn ekki réttindi til reykköfunar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir