Landað úr Sigurborgu SH 12 fyrr á þessu ári. Ljósm. tfk.

Rekstur sjávarútvegsfyrirtækja gekk vel miðað við aðstæður

Þrátt fyrir krefjandi aðstæður í fyrra, vegna Covid-19, gekk rekstur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og fiskeldisfyrirtækja ágætlega. Þetta má lesa úr samantekt Deloitte sem kynnt var á hinum árlega Sjávarútvegsdegi, sem var í dag. Dagurinn er samstarfsverkefni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Deloitte og Samtaka atvinnulífsins. Samantekt Deloitte byggist á ársuppgjörum fyrirtækja sem hafa yfir að ráða um 90% af úthlutuðu aflamarki, sem síðan er skalað upp í 100%.

Heildartekjur í sjávarútvegi námu 284 milljörðum króna í fyrra, sem er aukning um fjóra milljarðar frá árinu á undan. Framlegð nam 72 milljörðum króna og dregst saman um einn milljarð. Hagnaður dregst verulega saman, eða úr 43 milljörðum árið 2019 í 29 milljarða. Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja halda áfram að aukast og eru nú um 461 milljarður króna. Bókfært eigið fé nemur 325 milljörðum króna. Arðgreiðslur í sjávarútvegi í fyrra námu 21,5 milljarði króna og hækka frá fyrra ári um tæpa 11 milljarða króna. Fram kom í kynningu Deloitte að helmingur af þessum arðgreiðslum tilheyra dótturfélögum Samherja, en þau greiddu arð til móðurfélags. Móðurfélagið greiddi ekki út arð til sinna hluthafa. Er því eingöngu um greiðslur innan fyrirtækjasamstæðu að ræða.

Bein opinber gjöld sjávarútvegsfyrirtækja námu í fyrra um 17,5 milljörðum króna. Fjárfestingar á árinu eru á svipuðu róli og undanfarin ár, en þær námu 24 milljörðum króna í fyrra, sem er um þriðjungur af EBITDA.

Tekjur af fiskeldi hafa aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og hafa aldrei verið eins miklar og í fyrra, eða um 33,7 milljarðar króna. Þrátt fyrir það var lítilsháttar tap á rekstrinum, eða sem nemur 62 milljónum króna. Hagnaður á árinu 2019 var tæpir tveir milljarðar króna. Markaðsverð á laxi lækkaði á árinu og er það rakið til áhrifa af Covid faraldrinum. Veruleg aukning hefur orðið í fiskeldi og framleitt magn í fyrra var 41 þúsund tonn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir