Jóhann Steinar Ingimundarson nýr formaður UMFÍ til vinstri ásamt Hauki Valtýssyni fráfarandi formanni. Ljósm. UMFÍ.

Jóhann Steinar er nýr formaður UMFÍ

Jóhann Steinar Ingimundarson er nýr formaður UMFÍ. Hann tekur við af Hauki Valtýssyni, sem gegnt hefur embætti formanns frá árinu 2015 og ákvað að gefa ekki kost á sér að nýju. Jóhann var sjálfkjörinn því enginn bauð sig fram í formannsembættið. Kosning stjórnar UMFÍ fór fram á sambandsþingi UMFÍ, sem fram fór á Húsavík á laugardaginn. Jóhann Steinar hefur tengst ungmennafélaginu Stjörnunni í Garðabæ frá barnæsku og hefur verið formaður félagsins. Hann hefur setið í stjórn UMFÍ síðastliðin fjögur ár.

UMFÍ er landssamband ungmennafélaga á Íslandi. Innan þess eru 450 félög, þar af nær öll íþróttafélög landsins og eru iðkendur rúmlega 100 þúsund.

ÍBR og ÍA í stjórn UMFÍ

Nokkrar breytingar urðu á stjórn UMFÍ. Málfríður Sigurhansdóttir kom ný inn í stjórnina fyrir hönd Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR). Aðrir í stjórn UMFÍ voru kosin þau Gunnar Þór Gestsson frá Ungmennasambandi Skagafjarðar (UMSS), Ragnheiður Högnadóttir frá Ungmennasambandi Vestur-Skaftafellssýslu (USVS), Guðmundur Sigurbergsson fyrir hönd Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK), Gunnar Gunnarsson fyrir Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) og Sigurður Óskar Jónsson frá Ungmennasambandinu Úlfljóti (USÚ).

Í varastjórn voru kosin þau Hallbera Eiríksdóttir frá Ungmennasambandi Borgarfjarðar (UMSB), Lárus B. Lárusson frá Ungmennasambandi Kjalarnesþings (UMSK), Gissur Jónsson frá Héraðssambandinu Skarphéðni (HSK) og Guðmunda Ólafsdóttir frá Íþróttabandalagi Akraness (ÍA). Þær Málfríður og Guðmunda koma báðar frá íþróttabandalögum sem fengu aðild að UMFÍ á sambandsþingi UMFÍ árið 2019.

Líkar þetta

Fleiri fréttir