Akraborg í Ólafsvík. Ljósm. vaks.

Lifur í hillur kröfuharðasta markaðar í heimi

Um 40 starfsmenn vinna hjá Akraborg á Akranesi en fyrirtækið er með tvær starfsstöðvar eða verksmiðjur; eina á Akranesi en hin er staðsett í Ólafsvík. Fyrirtækið framleiðir mestmegnis niðursoðna þorsklifur en er einnig með aðrar vörutegundir eins og þorsklifrarpaté og niðursoðin svil. Blaðamaður Skessuhorns var á ferðinni á Snæfellsnesi á dögunum og kíkti við í Akraborg í Ólafsvík. Þar var til samtals verkstjórinn Óli Ólsen en hann hefur starfað sem verkstjóri hjá Akraborg síðan fyrirtækið keypti húsnæði niðursuðuverksmiðju Ægis árið 2016 og hóf síðan starfsemi í janúar 2017, en áður hafði Óli starfað í verksmiðjunni frá árinu 2013.

Anna og Óli, verkstjórar Akraborgar í Ólafsvík.

Óli er reyndar nýtekinn við sem verkstjóri í vinnslunni hjá Akraborg á Akranesi en á alltaf leið af og til vestur til að fylgjast með. Sú sem ræður ríkjum nú í Ólafsvík er Anna Rodziewicz og segir Óli að hann þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur, þetta sé í ansi góðum höndum hjá hinni harðduglegu Önnu. Hjá fyrirtækinu í Ólafsvík vinna átta manns og vinnutíminn er að jafnaði frá klukka 8-16 alla virka daga. Þar er verið að sjóða niður þorsklifur allt árið. Hráefnið kemur af svæðinu og segir Óli að þessu sé stýrt þannig að alltaf sé reynt að samnýta hráefnið, þ.e. ef meira er til á öðrum staðnum að þá er því keyrt á milli. Óli segir að hafa svona starfsemi í Ólafsvík sé gott fyrir samfélagið og að mörg aukastörf skapist á svæðinu. Þá nefnir hann að endingu að stór hluti af framleiðslunni fari til Frakklands og beint upp í hillur í verslunum á einum kröfuharðasta markaði í heimi.

Starfsmannaveltan hjá Akraborg er stöðug, sami kjarninn hefur verið lengi hjá fyrirtækinu á báðum stöðum enda launin viðunandi og starfsandi góður. Fyrir rúmlega tveimur árum setti fyrirtækið í gang tilraunaverkefni þar sem vinnuvika starfsmanna var stytt um tvær stundir á viku, það er enn í gangi og hefur gefist mjög vel. Um ákveðna launahækkun var um að ræða því starfsfólkið fékk greidd sömu laun fyrir 38 tíma vinnuviku í stað 40 tíma vinnuviku áður. Markmiðið með þessu var að gera fyrirtækið fjölskylduvænna og stuðla að meiri starfsánægju hjá starfsmönnum. Ársvelta Akraborgar er í kringum tveir milljarðar á ári.

Líkar þetta

Fleiri fréttir