Lara Becker á sýningarröð Michelle Bird í Borgarnesi í byrjun október.

Býr til skart og lítil málverk

Laugardaginn 2. október hélt listakonan Michelle Bird sína mánaðarlegu sýningaröð á heimili sínu í Borgarnesi, sem hún hefur umturnað í listgallerí. Sýningarnar eru einungis einn dag hverju sinni og koma ólíkir listamenn úr öllum áttum á heimili Michelle til að sýna list sína í hinum ýmsu formum. Þennan laugardag var Lara Becker að sýna verkin sín og segir Lara sýninguna hafa verið vel sótta. „Það gekk rosalega vel og það voru margir sem kíktu við. Ekki bara frá Borgarnesi og nágrenni, heldur voru margir sem komu frá Reykjavík líka, sem var gaman að sjá,“ segir Lara um sýningardaginn.

Svartskart og hengiskraut

Eyrnalokkar sem Lara hannar og hægt að kaupa á www.svartskart.is

Lara Becker er ýmislegt til listanna lagt. Hún hannar og býr til skartgripi; hringa og hálsmen með gimsteinum undir nafninu Svartskart, sem hægt er að kaupa á heimasíðu hennar www.svartskart.is. Auk þess málar hún litlar landslags- og náttúrumyndir með akrýlmálningu sem hún innsiglar með plastefni og umlykur að lokum með koparramma svo úr verði hengiskraut. „Ég elska að gleyma mér í smáatriðunum og datt í hug að búa til eitthvað sem fólk getur gefið vinum og fjölskyldu í gjafir, eins og svona lítil málverk sem auðvelt er að hengja upp,“ útskýrir Lara.

Lara stefnir á að sýna verkin sín aftur í desember. „Ég verð vonandi aftur hjá Michelle 11. desember næstkomandi en þá á að vera sérstök jólasýning. Hún Michelle er með það í bígerð. Ég er henni svo þakklát að búa til þennan vettvang fyrir okkur listafólkið til að geta komið og sýnt verkin okkar, það er ómetanlegt. Svo er þetta líka svo gott fyrir listalífið í Borgarnesi,“ segir Lara að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir