Lísa við saumamerkingarvélina þar sem hún er að merkja peysu fyrir viðskiptavin. Ljósm. tfk.

Álfar og tröll í Grundarfirði

Lísa Ásgeirsdóttir í Grundarfirði á og rekur fyrirtækið Rútuferðir ehf ásamt manni sínum Hjalta Allani Sverrissyni. Rútuferðir hefur verið að þjónusta ferðamenn á svæðinu ásamt því að aka fyrir Strætó bs. og nú nýverið fyrir Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Í nóvember í fyrra opnaði Lísa svo verslunina Álfar og tröll í húsnæði fyrirtækisins.

„Það var frekar rólegt hjá okkur í fyrrasumar og ég var búin að ganga með þessa hugmynd í maganum í mörg ár,“ segir Lísa í stuttu spjalli við Skessuhorn. „Ég hef prjónað frá því að ég var unglingur og lengi langað að prófa þetta.“ Lísa fjárfesti í saumamerkingavél og er komin með frábæra aðstöðu til að merkja fatnað, handklæði og nánast hvaða tauefni sem er. „Við opnuðum þetta í nóvember í fyrra og þetta byrjaði rólega en hefur verið að aukast jafnt og þétt. Það eru mest heimamenn sem eru að versla núna en það eru alltaf að aukast fyrirspurnir annarsstaðar frá.“

Húfan góða sem fréttaritari Skessuhorn fékk að hafa á höfðinu að viðtali loknu.

Lísa hefur aðallega verið að merkja fyrir fyrirtæki sem koma þá með eigin fatnað. „Ég er líka að selja vörur í endursölu sem ég merki og er kannski mest ætlað til ferðamanna,“ segir Lísa en þó hafi ferðamenn mest verið að kaupa lopapeysur sem hún og móðir hennar prjóna. Þau hjónin stefna á að auka umsvifin í þessari litlu verslun á næstu misserum og bjóða þá upp á hverskonar vörur ætlaða ferðamönnum á Snæfellsnesi. „Við vorum alltaf með það í huga að opna svona lundabúð hérna með ferðaþjónustunni og þetta er kannski fyrsta skrefið í því,“ segir Lísa að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir