Przemyslaw Oskar Dobrzyski hjá Faglegum þrifum að þrífa gluggana á ritstjórn Skessuhorns. Ljósm. mm.

Stofnaði gluggaþvottafyrirtæki á Akranesi

Eitt nýjasta fyrirtækið í flóru fyrirtækja á Vesturlandi nefnist Fagleg þrif og tekur það að sér gluggaþvott. Eigandi þess og eini starfsmaður er Przemyslaw Oskar Dobrzyski, en hann flutti ásamt konu sinni frá Kraká í Póllandi fyrir þremur árum. Sjálfur segist hann af praktískum ástæðum nota millinafnið Oskar hér heima þar sem fyrra nafn hans reynist Íslendingum erfitt í framburði. Oskar og kona hans hafa verið hér í þrjú ár og þar af tvö ár á Akranesi. Þau eiga þriggja ára son sem er í leikskólanum Vallarseli. Eiginkonan starfar hjá Vigni G Jónssyni.

Aðspurður um ástæðu þess að hann fluttist til Íslands segir Oskar að þau hafi langað að víkka út sjóndeildarhringinn og finnist gaman að ferðast. Heima í Kraká starfaði hann hjá skyndibitakeðju en var auk þess á fullu í íþróttum. Spilaði íshokki með meistaraflokki Cracovia í heimaborg sinni. Hér á landi hefur hann m.a. starfað hjá BM Vallá en varð að hætta þeirri vinnu eftir að hafa fengið sýkingu í hné og þurft að gangast undir aðgerð. „Mér hefur alltaf langað að reka eigið fyrirtæki og finnst gaman að þrífa. Eftir að ég komst að því að hér á Akranesi var ekkert gluggaþvottafyrirtæki starfandi lét ég verða af því að stofna fyrirtæki og byrja að bjóða upp á gluggaþvott. Byrjaði bara núna um síðustu mánaðamót og hafa viðtökurnar verið frábærar. Er þegar komin með nokkur fyrirtæki sem ég þríf fyrir,“ sagði Oskar þegar hann leit við á ritstjórn Skessuhorns við Garðabraut til að bjóða gluggaþvott. Aðspurður um hvernig honum og fjölskyldunni líkar að búa á Íslandi, svarar hann: „Okkur líkar landið, ekki þó endilega veðrið. En fólkið hér hefur tekið okkur vel og hér finnst okkur gott að búa,“ segir hann.

Nánari upplýsingar má finna á: Facebook.com/faglegthrif og í síma 761-6817.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir