Stefán Gísli á móti í Tuscon í Arizona 2018.

Skotfimi er mikil tækniíþrótt

Stefán Gísli Örlygsson, félagi í Skotfélagi Akraness, varð í sumar Íslandsmeistari í haglabyssugreininni Skeet, eða leirdúfuskotfimi, á vegum Skotíþróttasambands Íslands. Mótið fór fram á velli Skotíþróttafélags Suðurlands við Þorlákshöfn dagana 7. til 8. ágúst. Á mótinu voru allir bestu skotmenn landsins mættir. Í úrslitunum skaut Stefán Gísli 55 af 60 dúfum mögulegum sem tryggði honum sigurinn.

„Í leirdúfuskotfimi er það hið ólympíska skeet og trapp, sem keppt er í á Ólympíuleikunum. Svo eru til nokkrar aðrar greinar svo sem „sporting“ sem er meira veiðitengt,” segir Stefán Gísli í samtali við Skessuhorn. „Þar er enginn völlur eins, en í Skeetinu eru allir vellirnir eins alls staðar í heiminum. Kasthraðinn á skífunum er alltaf sá sami. Skotfimi er mikil tækniíþrótt. Hraðinn á leirdúfunum getur verið um 90 km á klukkustund þegar þeim er skotið af stað. Hraðinn er mikill og þú hefur ekki tíma til þess að leiðrétta eitt eða neitt, þú verður bara að vera tilbúinn frá upphafi. Þú ýmist skýtur eina dúfu eða það koma tvær í einu úr sitthvorri áttinni og þú hefur bara eitt skot á hvora.“

Áhugi á skotfimi er mjög mikill hér á landi og hefur farið vaxandi hin síðari ár. „Það eru hátt í sex þúsund iðkendur skráðir í aðildarfélögum skotsambandsins, bæði í haglabyssugreinum, í loftskammbyssu, loftrifflum og í kúlugreinum svokölluðum, bæði með skammbyssum og rifflum,“ segir Stefán Gísli.

Nánar er rætt við Stefán Gísla í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir