Samþætt leiðakerfi í Borgarbyggð

Í næstu viku hefst formlega tilraunarverkefni í almenningssamgöngum í Borgarbyggð sem ber heitið „Samþætt leiðakerfi.“ Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hlutu 12 milljóna styrk, sem deilist á tvö ár, frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu til að hrynda verkefninu í framkvæmd. Tilraunaverkefni þetta er samstarfsverkefni Borgarbyggðar, SSV, Menntaskóla Borgarfjarðar og Vegagerðarinnar. Til að gera verkefnið framkvæmanlegt þurfti Borgarbyggð m.a. að breyta reglum um skólaakstur í sveitarfélaginu. Nú geta því aðrir en grunnskólabörn nýtt skólabílana í uppsveitum Borgarfjarðar og á Mýrum. Ekki síst er horft til þess að nemendur í Menntaskóla Borgarfjarðar geti nú búið heima hjá sér í sveitinni og nýtt almenningssamgöngur til að komast í og úr skóla. Tekið er fram í kynningu vegna verkefnisins að nánari útfærsla verði kynnt síðar. Til að verkefnið yrði framkvæmanlegt hætti Vegagerðin við að leggja niður leið 81 líkt og til stóð. Einnig mun Strætó bs. bæta við leiðum í leiðarkerfi sitt þannig að ekið verði alla virka daga yfir vetrartímann. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa haldið utan um undirbúning verkefnisins en Menntaskóli Borgarfjarðar og Borgarbyggð styðja við það með fjárframlagi og kynningu.

„Mikil samstaða hefur myndast á milli samstarfsaðila og samningaviðræður hafa gengið vonum framar. Það er því mikil ánægja að nú sé loksins hægt að bjóða upp á þessa þjónustuviðbót fyrir íbúa sveitarfélagsins. Fyrst um sinn verður boðið upp á ferðir frá Kleppjárnsreykjum og Varmalandi í Borgarnes alla virka morgna klukkan 08:20. Um er að ræða fyrsta áfanga verkefnisins en það mun þróast í takt við eftirspurn og nýtingu akstursleiðarinnar,“ segir í tilkynningu frá Borgarbyggð. Til stendur að þriðjudaginn 19. október klukkan 08:20 verði fyrstu ferðirnar farnar frá Kleppjárnsreykjum annars vegar og Varmalandi hins vegar og ekið í Borgarnes. Í fyrstu ferðinni mæta forsvarmenn þeirra stofnana sem að verkefninu standa. Nánari upplýsingar um miðakaup, leiðarkerfi og annað verður síðan birtar á heimasíðu Borgarbyggðar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir