Vill afnema aldurstakmörk eftir 18 ára

Skessuhorn sló í byrjun vikunnar á þráðinn til nýrra þingmanna Norðvesturkjördæmis og spurði út í úrslit kosninganna og hver væru helstu verkefni næsta kjörtímabils. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir nýkjörinn þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi sagði:

„Ég er mjög sátt við þessi úrslit, bæði með úrslitin í Norðvesturkjördæmi og á landsvísu. Það er mikil gleði í okkar hópi.“ Aðspurð segir hún sitt helsta baráttumál fyrir komandi kjörtímabil vera að tryggja að ungt fólk geti búið á landsbyggðinni og sjái framtíð í því. „Ég vil styrkja byggðirnar og auka jafnrétti til náms, starfa og búsetu um allt land. Ég vil sjá fleiri störf án staðsetningar og einnig styrkja fjarnám í opinberum skólum, ekki bara á stökum námsbrautum,“ segir Lilja. Menntamálin eru henni ofarlega í huga enda sjálf kennaramenntuð og hefur starfað í leik- og grunnskólum síðan hún lauk stúdentsprófi.

Spurð hvert verður hennar fyrsta verk á nýju kjörtímabili hlær Lilja og segist ætla að byrja á að læra á nýja starfið. „Ef ég á að vera heiðarleg held ég að fyrst þurfi ég að komast á jörðina og sjá betur hvernig þingið virkar; læra á störfin þar. Þannig sé ég betur hvernig ég eigi að setja fram mín mál svo þau gangi upp,“ svara Lilja. Hún segir þó eitt mál ofar öðrum á hennar forgagnslista. „Ég hef talað mikið fyrir því að við afnemum öll aldurstakmörk eftir 18 ára. Við eigum að láta hæfni ráða en ekki aldur. Það eru til dæmis ýmis embætti sem fólk þarf að hafa náð ákveðnum aldri til að gegna, eins og til dæmis embætti ríkislögreglustjóra. En til að verða ráðherra þarf aðeins að vera 18 ára og það embætti er samt hærra. Ég vil líka að við getum unnið eins lengi og við viljum. Fólk er fullorðið 18 ára og þá ætti það að ráða hversu lengi það vinnur og hæfnin að ráða hvaða störf það getur fengið,“ segir Lilja Rannveig.

Líkar þetta

Fleiri fréttir