Þórdís Kolbrún R Gylfadóttir (D)

Leggur áherslu á innviðauppbyggingu

Skessuhorn sló í byrjun vikunnar á þráðinn til nýrra þingmanna Norðvesturkjördæmis og spurði út í úrslit kosninganna og hver væru helstu verkefni næsta kjörtímabils. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, nýkjörinn þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðvesturkjördæmi sagði: „Sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins er ég ánægð með útkomu stjórnarflokkanna. Við höldum okkar þingmannafjölda en ég leyni því ekki að ég hefði viljað sjá okkur bæta þingmönnum við okkur og í Norðvesturkjördæmi sé ég að sjálfsögðu eftir fyrsta þingmanni kjördæmisins. Þetta kjördæmi er sögulega sterkt fyrir Framsóknarflokkinn og þegar stemningin í kringum Framsókn er eins og hún var nú gerði ég alveg ráð fyrir að það myndi hafa áhrif.“

Aðspurð um hvert yrði fyrsta þingmálið sem Þórdís legði áherslu á sagði hún að það yrði að fá að koma í ljós. „Það fer eftir því hlutverki sem ég verð í. Hvort að við myndum ríkisstjórn með þeim stjórnarflokkum sem við höfum starfað með eða hvort það gerist eitthvað annað. Ef það gerist í hvaða hlutverki ég verð þar. Það hangir á næstu skrefum.“

Þórdís leggur áherslu á innviðauppbyggingu; „..að þeir innviðir sem ríkið segist ætla að sinna sé almennilega sinnt. Að þjónusta sem ríkið segist ætla að sinna sé almennilega sinnt og í þriðja lagi að við séum ekki fyrir. Að við séum að gera fólki kleift að sækja fram og nýta þessi tækifæri. Að við séum ekki að þvælast fyrir með óþarfa regluverk eða í samskiptum við hið opinbera, málsmeðferð, tíma og annað slíkt. Þegar kemur að innviðauppbyggingu og að bæta þessa þjónustu, t.a.m. heilbrigðisþjónustu úti á landi þá legg ég áherslu á við séum óhrædd við að leita nýrra leiða í því, bæði er varðar samstarf á milli kerfa, að kerfin vinni þvert en ekki í svona sílóum. Það er eina leiðin til þess að ná utan um verkefnin og líka að lofta um kerfin. Hleypa fleiri aðilum að kerfinu til þess að hjálpa okkur að bæta þjónustuna.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir