Oddviti Pírata segir einu lausnina að endurtaka kosningarnar

Magnús D. Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, hefur lýst yfir óánægju með hvernig staðið var að talningu atkvæða í kjördæminu. Á Facebook síðu sinni í gærkvöldi skrifaði hann færslu þar sem hann spyr hvernig kjósendur eigi að treysta lýðræðislegu ferli eftir að kjörgögn voru ekki innsigluð eftir talninguna í gærmorgun. Bendir hann á að óinnsigluð kjörgögn hafi verið geymd í opnum sal hótelsins í Borgarnesi í sex klukkustundir á meðan talningarfólk fór heim. „Það voru gestir á þessu hóteli. Breytingar verða á fjölda ógildra atkvæða og auðra atkvæða milli talninga. Trúverðugleiki talningarinnar í Norðvesturkjördæmi er algjörlega farinn og þar með trúverðugleiki kosninganna sjálfra,“ segir Magnús í færslunni. Hann segir einu leiðina til að leysa úr þessu vera að endurtaka kosningarnar í kjördæminu; „og tryggja gagnsæi og að farið sé eftir lögum og reglum. Það er sanngjörn og réttmæt krafa okkar frambjóðenda og ekki síst kjósenda í kjördæminu.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir