Þau verða þingmenn Norðvesturkjördæmis

Fylgi flokka í Norðvesturkjördæmi.

Talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi lauk á áttunda tímanum í morgun. Engin breyting varð frá fyrri tölum í nótt um hverjir yrðu kjördæmakjörnir þingmenn. Jöfnunarþingsætið var hins vegar á fleygiferð allt þar til búið var að telja síðasta atkvæðið á landinu. Það kom í hlut Guðmundar Gunnarssonar í Viðreisn. Óhætt er að segja að Framsóknarflokkur og Flokkur fólksins hafi verið sigurvegarar í kjördæminu, bættu báðir við sig kjördæmakjörnum manni frá síðustu kosningum. Framsóknarflokkur fær þrjá þingmenn kjörna; Stefán Vagn Stefánsson sem verður 1. þingmaður kjördæmisins, Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur og Höllu Signýju Kristjánsdóttur. Sjálfstæðiflokkur fær tvo menn á þing, líkt og fyrir fjórum árum; þau Þórdísi Kolbrúnu R Gylfadóttur og Harald Benediktsson. Vinstri grænir fá einn þingmann; Bjarna Jónsson. Loks er þingmaður Flokks fólksins Eyjólfur Ármannsson. Samfylking missir þingmann sinn í kjördæminu og Miðflokkurinn báða sína. Fyrir íbúa í NV kjördæmi setjast því á þing fimm karlmenn og þrjár konur. Í fyrsta skipti í sögunni skipa konur hins vegar meirihluta á Alþingi Íslendinga.

Alls eru 21.548 á kjörskrá í Norðvesturkjördæmi; 11.008 karlar og 10.508 konur. 17.666 greiddu atkvæði sem er 82% kjörsókn. Auðir seðlar og ógildir í kjördæminu voru 394.

Líkar þetta

Fleiri fréttir