Guðrún Sigurjónsdóttir og Rafn Valur Alfreðsson undirrituðu samninginn.

Samið um að Rafn Valur taki að sér sölu Norðurár

Í gær undirrituðu Guðrún Sigurjónsdóttir fyrir hönd Veiðifélags Norðurár og Rafn Valur Alfreðsson f.h. FHD ehf samning um sölu og umsjón Norðurár til næstu fimm ára. Eins og kunnugt er hættir Einar Sigfússon nú sölu veiðileyfa í ána. Samningurinn við Rafn Val var samþykktur samhljóða á félagsfundi í Munaðarnesi í gærkvöldi. „Það var samþykkt á aðalfundi félagsins í vor að leita að söluaðila til að selja ána með líku fyrirkomulagi og gert hefur verið síðan 2013. Margir sýndu því áhuga að koma að rekstri árinnar og ræddi stjórnin við marga aðila. Niðurstaðan var að semja við Rafn í Miðfjarðará um að taka að sér sölumálin. Við gerum ráð fyrir lítillega breyttu fyrirkomulagi og fækkum stöngum aðeins og stækkum veiðisvæði,“ segir Guðrún Sigurjónsdóttir.

„Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessu verkefni á sama tíma og ég er afar stoltur yfir því trausti sem landeigendur í Norðurá eru að sýna mér. Ég hef alla tíð lagt mikinn metnað í minn rekstur og það að Norðurá sé nú innan minna vébanda mun efla mig og félag mitt til að gera enn betur. Hér er mikil saga og Norðurá á sér mjög stóran hóp aðdáenda þannig að ég er að taka við góðu búi.  Við höfum fengið til liðs við okkur Brynjar Hreggviðsson sem er reynslumikill sölumaður og mun aðkoma hans styrkja okkur enn frekar,“ segir Rafn Valur af þessu tilefni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir