Landmótun ásamt Sei Stúdíói eru sigurvegarar hugmyndasamkeppninnar um Langasand. Ljósm. vaks

Niðurstaða dómnefndar í hugmyndasamkeppni um Langasand kynnt

Akraneskaupstaður ákvað árið 2020 að efna til hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Langasandssvæðisins á Akranesi í samstarfi við FÍLA, Félag íslenskra landslagsarkitekta. Markmiðið með samkeppninni var að fá hugmyndir um framtíðarskipulag svæðisins í heild sem tengir m.a. strandsvæði, skólasvæði, framtíðar uppbyggingarreit og hafnarsvæðið. Svæðið er um 35 hektarar að stærð og er stór hluti þess innan hverfisverndar í gildandi aðalskipulagi. Það nær yfir útivistarsvæði frá Leynisfjöru, Sólmundarhöfða, meðfram Langasandi að Faxabraut. Eftir svæðinu liggur strandstígur og á því er íþróttasvæðið að Jaðarsbökkum, íbúðabyggð á Sólmundarhöfða, hjúkrunar- og dvalarheimilið Höfði sem og fjölbýlishús við Garðabraut, Höfðabraut og Jaðarsbraut.
Apríl Arkitektar, Kanon Arkitektar og Landmótun sf. ásamt Sei Stúdíó voru þau þrjú teymi sem tóku þátt í hugmyndasamkeppninni en þau voru formlega dregin út í útdrætti þann 20. mars 2021.
Seinni partinn í dag var tilkynnt um sigurvegara í hugmyndasamkeppni um Langasandinn. Það var teymi Landmótunar og Sei Stúdíós sem bar sigur úr býtum. Ragnar B. Sæmundsson, formaður skipulags- og umhverfisráðs Akraneskaupstaðar og formaður dómnefndarinnar, sagði þegar tilkynnt var um sigurvegara að dómnefndin hefði verið einróma um sína niðurstöðu: „Þykir vinningstillagan í þessari samkeppni sannfærandi og höfðar til allra notenda. Ásamt því virðir hún þolmörk og staðaranda svæðisins. Tillagan Langisandur fyrir alla er val dómnefndar um sigurvegara í hugmyndasamkeppninni um skipulag og hönnun Langasandssvæðisins á Akranesi.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir