Bræðurnir Friðrik Dór og Jón Jónsson skemmtu. Ljósmyndir: Sumarliði Ásgeirsson.

Mikið fjör á Fosshóteli Stykkishólmi á föstudaginn

Á föstudaginn í síðustu viku var mikið fjör á Fosshóteli Stykkishólmi þegar haldin var formleg opnunarhátíð á nýendurbættum 300 manna ráðstefnu- og veislusal, nýjum bar, veitingastað, nýjum herbergjum og glæsilegri aðstöðu. Að sögn markaðsstjóra Íslandshótela er aðstaðan í Stykkishólmi tilvalin fyrir árshátíðir, tónleika, ættarmót eða aðra viðburði og býður upp á ýmsa möguleika. Ekki skemmir að Stykkishólmur er í aðeins um tveggja tíma akstursfjarlægð frá höfuðborginni.

Hótelið var opnað fyrir gestum og gangandi klukkan 16 á föstudaginn þar sem fólki gafst færi á að skoða nýju herbergin og hótelið þar til formleg dagskrá hófst í nýuppgerða hátíðarsalnum. Gunnar Svanlaugsson stjórnaði dagskránni og Hólmarar fluttu stutt ávörp. Þá tók tónlistarfólk úr bænum við, þau László Petö, Lárus Ástmar Hannesson, Kristjón Daðason, Þórhildur Pálsdóttir og Sveinn Arnar Davíðsson. Eftir stutt hlé á dagskránni komu bræðurnir Friðrik Dór og Jón Jónsson og héldu uppi stemningu fyrir Hólmara fram eftir kvöldi. Tónleikum þeirra var útvarpað í beinni útsendingu á Bylgjunni. „Í lok kvöldsins voru allir í skýjunum með þennan frábæra dag,“ segir markaðsstjórinn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir