Guðrúnu sagt upp störfum í Safnahúsi Borgarfjarðar

Ágreiningur hefur á þessu ári staðið um stjórnun og starfsmannamál í Safnahúsi Borgarfjarðar og hafa deilur þessar leitt til vandamála í samskiptum milli forstöðumanns og forsvarsmanna sveitarfélagsins. Hefur málið m.a. náð svo langt að forstöðumaður safnahúss hefur sakað sveitarstjóra Borgarbyggðar um einelti í sinn garð. Deilur hafa nú harðnað til muna og var Guðrúnu Jónsdóttur, sem gegnt hefur starfi forstöðumanns safnahússins síðastliðin 15 ár, sagt upp störfum í gær. Tilkynnti hún sjálf um uppsögn sína á facebook síðu sinni í morgun þar sem hún segir meðal annars: „Sú ákvörðun er mér þungbær enda var það gert í kjölfar þess að ég lagði fram eineltiskvörtun á hendur sveitarstjóra vegna óréttmætrar framkomu hennar í minn garð og í kjölfar þess að ég höfðaði dómsmál gegn Borgarbyggð þar sem ég taldi að á mér væri brotinn réttur sem starfsmanni.“

Það var Lilja Björg Ágústsdóttir, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar, sem ritaði Guðrúnu bréf og tilkynnti um boðaða uppsögn síðdegis í gær. Forseti sveitarstjórnar ritar undir bréfið þar sem sveitarstjóri er vanhæfur í málinu, að framangreindum ástæðum. Lilja Björg vildi í samtali við Skessuhorn ekki tjá sig frekar um þetta erfiða mál, þar sem það í fyrsta lagi snerti starfsmannamál og hins vegar að enn séu viðræður í gangi milli málsaðila.

Klukkustund eftir að Guðrún birti yfirlýsingu sína í morgun skrifaði Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri Borgarbyggðar eftirfarandi færslu á sína persónulegu síðu, þar sem hún útskýrir málið, án þess að nafngreina viðkomandi: „Undanfarnir dagar hafa verið mér erfiðir. Ég hef verið ásökuð um einelti í starfi mínu sem sveitarstjóri gagnvart starfsmanni. Mér þykir miður að starfsmaðurinn hafi upplifað einelti af minni hálfu. Ég hef það að leiðarljósi, í starfi mínu og lífinu almennt, að gæta jafnræðis, stuðla að góðum samskiptum, taka á vandasömum málum og hreinskilni er mér sérstaklega hugleikin. Framangreindri ásökun um einelti hafna ég alfarið. Ég get eðli máls samkvæmt ekki greint frá málinu í efnisatriðum vegna þagnarskyldu minnar sem sveitarstjóri, en málið er í farvegi þar sem allt er upp á borðum,“ skrifar Þórdís Sif.

Líkar þetta

Fleiri fréttir