Hvalfjarðarsveit hefur samið við Þrótt ehf. um jarðvinnu, lagnir og yfirborðsfrágang við nýja götu í Melahverfi. F.v. Hlynur Sigurdórsson, Linda Björk Pálsdóttir og Helgi Þorsteinsson. Ljósm. Hvalfjarðarsveit.

Hvalfjarðarsveit semur við Þrótt um gatnagerð

Hvalfjarðarsveit hefur gengið til samninga við Þrótt ehf. um jarðvinnu, lagnir og yfirborðsfrágang við nýja götu í Melahverfi og verður verkið unnið í samvinnu við Veitur, Mílu og Rarik. Í tilkynningu frá Hvalfjarðarsveit segir að nýja gatan heiti Lyngmelur og er sunnan megin í hverfinu. Þá segir að framkvæmdir eigi að hefjast í lok október og áætluð verklok fyrsta áfanga eru í febrúar á næsta ári og áætlað að búið verði að malbika götuna í júní sama ár.

Gatnagerðin er mikilvægur áfangi í áframhaldandi uppbyggingu Melahverfis og verður lóðaúthlutun auglýst innan tíðar. Við Lyngmel verða sex einbýlishúsalóðir, tvær parhúsalóðir og ein fjögurra íbúða raðhúsalóð. Í maí síðastliðnum fór fram lóðaúthlutun við Háamel í Melahverfi og var mikill áhugi er úthlutað var einni einbýlishúsalóð, þremur parhúsalóðum og einni þriggja íbúða ráðhúsalóð, segir í frétt Hvalfjarðarsveitar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir