Haförn á flugi við Snæfellsnes. Ljósm. af.

Varp hafarna heppnaðist vel

Varp hafarna hefur heppnast vel í ár, að sögn Róberts Arnars Stefánssonar, líffræðings hjá Náttúrustofu Vesturlands. Talið er að stofninn telji nú á fjórða hundrað fugla og að 86 óðul séu í ábúð. Alls var orpið á 69 óðulum og komust 58 ungar á legg á 45 þeirra, sem er met. Stofninn er þó talsvert langt frá því að ná sama styrk og fyrr á öldum en þróunin er mjög jákvæð.

Hafarnarstofninn hefur verið í hægum vexti allt frá áttunda áratugnum en þá hafði hann staðið að mestu í stað allt frá því um 1920. Þá taldi stofninn um 20 varppör. Stofninn hafði sætt ofsóknum auk þess sem haförninn sótti í æti sem var eitrað og sett út fyrir refi. Þá leið stofninn fyrir notkun þrávirkra lífrænna mengunarefna víða um heim, svo sem DDT og PCB, sem bárust hingað með loftstraumum og fardýrum. „Margir ránfuglar áttu erfitt vegna téðra ofsókna og mengunarefna,“ segir Róbert.

Þegar bann hafði verið sett við útburði eitraðs ætis tók stofninn að vaxa. Róbert bendir á að stofninn hafi gengið í gegnum flöskuháls erfðafræðilega vegna fæðar. „Frændur og frænkur æxluðust og er erfðafræðileg einsleitni í stofninum mikil. Mögulega hefur það hægt á fjölgun stofnsins eftir að hagstæðari skilyrði sköpuðust en litlir og einsleitir stofnar hafa minni getu til að bregðast við umhverfisbreytingum,“ segir Róbert. Þá segir hann jafnframt að vöxtur stofnsins á Íslandi hafi verið hægari en stofnar hafarna annars staðar í Evrópu og að mögulega skýrist það að einhverju leyti af þessari einsleitni hér á landi.

Að sögn Róberts er hafarnarstofninn sá fuglastofn á Íslandi sem hvað best er fylgst með. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umsjón með vöktun hans en vinnur í náinni samvinnu við Náttúrustofu Vesturlands og fuglaáhugafólk. Hafernir geta náð a.m.k. tuttugu ára aldri og munu ungamerkingar undanfarinna ára varpa skýrara ljósi á aldurssamsetningu stofnsins, ferðir á milli landshluta og ýmsa aðra þætti. Varp hafarna er þéttast við sunnanverðan Breiðafjörð en varpútbreiðslan nær frá Faxaflóa vestur um og að Húnaflóa. Á þessu svæði gætir mikilla sjávarfalla og grunnsævi er mest hér við land. Aðgengi arna að fæðu er þess vegna betra á þessu svæði en annars staðar. Hafernir hafa fjölbreytt fæðuval og sérhæfa sig ekki í neinni sérstakri tegund. Uppistaðan í fæðu hafarnarins er þó fuglar og grunnsævisfiskar.

Ernir sjást nú orðið í öllum landshlutum og ef stofninn heldur áfram að vaxa er líklegt að varpútbreiðslan aukist. Haförninn verpir í apríl og ungarnir verða fleygir í lok ágúst. Hins vegar er með haferni eins og mörg mannanna börn að hann hangir lengi heima eða allt að áramótum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir