Sárlega vantar hlýjan skjólfatnað, skó og teppi fyrir skjólstæðinga Konukots. Ljósm. Fréttablaðið/ Anton Brink

ÞÞÞ keyrir fatnað endurgjaldslaust til Konukots

Bifreiðastöð ÞÞÞ á Akranesi hefur tekið að sér að flytja föt sem safnað er á Akranesi fyrir Konukot, endurgjaldslaust til Reykjavíkur, en Konukot hefur sent ákall til almennings um að láta af hendi rakna hlýjan fatnað og skó fyrir skjólstæðinga Konukots. Halldóra R. Guðmundsdóttir segir í viðtali við Fréttablaðið að vel hafi verið tekið í ákall þeirra en að enn vanti hlýjar úlpur og skó. „Við höfum verið að fá regnkápur, flíspeysur og allskonar þess háttar. Við höfum fengið úlpur en þær fara mjög hratt og það væri gott að fá fleiri og til að eiga eitthvað á lager,“ segir hún.

Anna María Þórðardóttir, starfsmaður Bifreiðastöðvar ÞÞÞ tilkynnir á íbúasíðu Akurnesinga á Facebook að Skagamönnum sé velkomið að koma með fatnað fyrir Konukot til ÞÞÞ, Smiðjuvöllum 15, og að ÞÞÞ keyri fötin endurgjaldslaust til Reykjavíkur í Konukot. Eru Skagamenn hvattir til þess að taka vel í ákall Konukots um úlpur og skó en að auki vantar Konukoti teppi. Þau fari yfirleitt hratt þegar þeim er deilt út.

Líkar þetta

Fleiri fréttir