Frambjóðendur og trillukarl. Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Steindór Oliversson. Ljósm. frg

Frambjóðendur Miðflokksins í beitningarkeppni

Frambjóðendur stjórnmálaflokkanna eru nú á þeysireið um kjördæmin að kynna sín stefnumál og jafnframt að kynnast íbúum og því sem íbúarnir eru að fást við. Er enda hver að verða síðastur því ört styttist til alþingiskosninga sem haldnar verða 25. september.

Þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson, frambjóðendur Miðflokksins, voru á Akranesi í dag. Þar heimsóttu þeir meðal annars trillukarlinn góðkunna, Steindór Oliversson.

Steindór skoraði á þingmannsefnin að keppa sín á milli í beitningu. Sigurður Páll þótti þó ekki hæfur til slíkrar keppni þar sem hann er mun vanari en hinir. Keppendur áttu að beita eitt hundrað krókum á mann. Bergþór beitti krókana á fjórtán og hálfri mínútu en Sigmundur á fimmtán mínútum. Sigmundur Davíð þurfti hins vegar að bæta á tveimur krókum þannig að Steindór felldi salómonsdóm um jafntefli.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir