Smiðjuloftið fagnaði afmæli

Smiðjuloftið fagnaði þriggja ára starfsafmæli með veglegri afmælisveislu dagana 2.-5. september. „Á dagskrá voru fjölbreyttir viðburðir fyrir börn sem fullorðna með áherslu á listir og hreyfingu, sem er einmitt einkenni starfsins á Smiðjuloftinu,“ segir í tilkynningu frá Valgerði Jónsdóttur. Á föstudagskvöldinu voru haldnir tónleikar tileinkaðir tónlist frá ýmsum löndum, aðallega þjóðlagatónlist. Þar komu fram Rut Berg Guðmundsdóttir á harmónikku og Úlfhildur Þorsteinsdóttir á víólu, ásamt Valgerði, Þórði Sævarssyni og Sylvíu dóttur þeirra. „Á laugardeginum komu svo trúðastelpur í heimsókn með skemmtilega sýningu fyrir yngstu börnin frá Kría Aerial arts. Þær stöllur Lauren Charnow og Alicia Demurtas starfa aðallega sem loftfimleikakonur og sáu einnig um sýningu í loftfimleikum í silkiborðum. Gestir fengu svo að prófa silkiborðana og sýndu margir góða takta. Fyrsti fjölskyldutími vetrarins var svo á sunnudeginum, en þessir tímar eru á hverjum sunnudegi yfir haust- og vetrartímann frá kl. 11-14. Fjölskyldufólk frá nágrannasveitarfélögum Akraness hefur verið mjög duglegt að fá sér rúnt á Skagann og nýta sér þessa skemmtun,“ segir Valgerður.

Nú eru klifuræfingar hafnar fyrir börn og fullorðna hjá Klifurfélagi ÍA, tónlistarnámskeið fyrir 3-5 ára er í gangi og næsta föstudag hefst einmitt námskeið í loftfimleikum með silkiborða, bæði fyrir 10-16 ára og fullorðna.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir