Minningarfyrirlestur um Snorra Sturluson

Þriðjudaginn 21. september kl. 20 flytur Gottskálk Jensson minningarfyrirlestur um Snorra Sturluson í Bókhlöðu Snorrastofu er nefnist „Reykhyltingur um Reykhylting: Ævisögur Snorra Sturlusonar á latínu eftir Finn Jónsson biskup“. Fyrirlesturinn er öllum opinn og er aðgangur ókeypis.

Finnur Jónsson var prestur í Reykholti og prófastur í Borgafjarðarsýslu áður en hann varð biskup í Skálholti. Hann var einn lærðasti maður síns tíma og er sennilega kunnastur fyrir hina miklu Kirkjusögu sína í fjórum bindum sem út kom í Kaupmannahöfn á árunum 1772 til 1778. Í Kirkjusögunni er m.a. að finna ævisögu Snorra Sturlusonar, sem einnig bjó lengi í Reykholti. Sú ævisaga er þó aðeins stuttur texti, mun lengri er sú saga sem Finnur skrifaði um ævi Snorra fyrir hina konunglegu Kaupmannahafnar-útgáfu Heimskringlu sem út kom í þremur bindum á árunum 1777 til 1783. Þar spannar ævisaga Snorra 57 kafla og allt á latínu eins og raunar styttri ævisagan í Kirkjusögunni líka. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir skrifum Finns um Snorra og sérstaklega gætt að öllu sem varðar Reykholt.

Gottskálk Jensson er doktor í latínu og forngrísku frá háskólanum í Toronto í Kanada. Hann er rannsóknardósent við Kaupmannahafnarháskóla og gestaprófessor við Háskóla Íslands.

-Fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir