Feðgarnir Móses og Philip í matarvagninum Punto Caffé. Ljósm. vaks

Nýr matarvagn í Borgarnesi

Um miðjan ágúst í sumar opnuðu feðgarnir Móses Kjartan Jósefsson og Philip Stefán Mósesson matarvagn í Borgarnesi. Ber hann nafnið Punto Caffé. Vagninn er staðsettur við holtið milli Hjálmakletts og Hyrnutorgs. Í vagninum er boðið upp á fimm tegundir af samlokum og úrval af gæðakaffi frá Kaffitári, eins og cappuccino, espresso, americano, caffe latte og einnig gos, ís úr vél og prótein smákökur. Langvinsælasta samlokan á Punto Caffé er Lomito Italiano sem inniheldur rifið grísakjöt, tómata, avakadó og majones og stóðst blaðamaður ekki freistinguna og splæsti í eina og bragðaðist hún býsna vel. Matarvagninn er opinn frá kl. 9-18 mánudaga til föstudags, á laugardögum frá kl. 12-18 en lokað er á sunnudögum. Hægt er að panta á fésbókinni undir Punto Caffé eða bara mæta á staðinn.

Í stuttu spjalli við blaðamann sagði Móses að hann væri ættaður frá Chile en hefði komið til Íslands árið 1998 en flutt í Borgarnes 2017. Auk þessa reksturs kennir Móses einnig sjálfsvörn þrisvar í viku í Menntaskólanum í Borgarnesi, svokallað kenpo karate. Mun hann kenna við skólann allavega út þessa önn. Móses hefur hug á að færa út kvíarnar næsta sumar en tíminn muni leiða það allt í ljós.

Líkar þetta

Fleiri fréttir