Hvolsá og Staðarhólsá í Dölum hafa gefið 116 laxa í sumar. Hér er Bragi Guðjónsson með lax úr Staðarhólsá um helgina.

Byrjaði að veiðast um leið og fór að rigna

„Já, það byrjaði að rigna í dag og það breytti öllu. Við fengum fjóra flotta laxa í Staðarhólsánni og Hvolsá um leið og vatnið jókst verulega,“ sagði Sigursveinn Bjarni Jónsson, sem var við veiðar í Hvolsá og Staðarhólsá í Dölum nú þegar það tók að rigna verulega.

„Áður hafði ekki komið dropi úr lofti þegar við mættum að veiða en það breyttist sem betur fer. Við höfðum beitt öllum brögðum til að ná í fiska fyrsta daginn, en það gekk rólega þar til rigningin kom. Það hafa veiðst 116 laxar og um 200 bleikjur í ánum í sumar. En í rigningunni í dag fengum við tvo laxa og fimm bleikjur,“ sagði Sigursveinn ennfremur.

Í Miðá í Dölum tók líka að rigna en þar hafa veiðst 157 laxar og 132 bleikjur í sumar að sögn Fjólu Mikaelsdóttir, sem veit allt um veiðina í Miðá. Veiðin er farin að styttast í annan endann en nú hefur rignt verulega og fiskurinn tekur betur. Og nú þegar hausta tekur taka hængarnir sérstaklega.

Líkar þetta

Fleiri fréttir