Hendrik Björn Hermannsson hefur opnað H-veitingar í Borgarbyggð. Ljósm. arg

„Ég elska að dekra við fólk, það er mín ástríða“

Í ágústmánuði opnaði Hendrik Björn Hermannsson veitingaþjónustuna H-veitingar í Borgarbyggð. Blaðamaður Skessuhorns kíkti í eldhúsið til Hendriks í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri í hádeginu á föstudaginn þar sem hann var á fullu að undirbúa hádegismat fyrir fólk á Hvanneyri, í Borgarnesi og nærsveitum. Þennan dag bauð hann upp á lasagna, snitsel í raspi, lambapottrétt, sveppasúpu og salat, og að sjálfsögðu nýbakað brauð með. Þó að mikið hafi verið um að vera á háannatíma var ekki að sjá annað en það væri mikil gleði í eldhúsinu með Hendrik. Hann hrærði í pottum á milli þess sem hann setti mat í ofninn og ræddi við blaðamann með bros á vör. Á meðan var starfsfólk hans að undirbúa matarbakka sem átti að senda í Borgarnes. „Það fer alltaf bíll frá okkur í Borgarnes um klukkan hálf tólf alla virka daga. Fólk og fyrirtæki geta hringt og pantað mat hjá okkur, hvort sem það er fyrir tvo, þrjá, fjóra eða fleiri og fengið sent,“ segir Hendrik um leið og hann sneiðir niður brauð í matarbakkana.

Nánar er rætt við Hendrik Björn í Skessuhorni sem kom út í dag, um fyrirtækið H-veitingar sem mun auk framleiðslu á mömmumat annast veisluþjónustu og stefnir á opnun pizzastaðar í Borgarnesi síðar á þessu ári.

Líkar þetta

Fleiri fréttir