Það verður kassabílarallý á Akranesi í lok ágúst.

Undirbúningur fyrir Kassabílarallý á Akranesi 28. ágúst

Laugardaginn 28. ágúst fer fram í fyrsta skipti á Akranesi kassabílarallý og hefst það klukkan 13 og stendur til kl. 17. Hugmyndin er að allir geti tekið þátt án mikils tilkostnaðar og að bílarnir verði sem mest smíðaðir úr notuðu efni. Á vef Akraneskaupstaðar kemur fram að Terra safnar dekkjum af barnavögnum og reiðhjólum sem safnað verður saman í gám og komið niður í áhaldahús. Akraneskaupstaður styrkir keppnina með því að veita aðstöðu í áhaldahúsinu til að smíða bíla ef einhverjir þurfa á því að halda. Fjórir bílar verða smíðaðir og gefnir öllum leikskólunum á Akranesi og hver merktur sínum leikskóla. Hugmyndin er að í sumar verði þeir staðsettir á Akratorgi, bæði til þess að auglýsa keppnina og leyfa börnum að leika sér á þeim á daginn.

Húsasmiðjan leggur til efni í 25 kassabíla sem búið verður að efna niður í svokallað „kassabílakitt“ og verða þau afhent í Áhaldahúsinu á Laugarbraut fyrir keppendur á öllum aldri. Þar verður hægt að fá aðstoð við að setja saman og útfæra bílana og einnig hægt að fá aðstoð við að smíða alveg nýja bíla frá grunni. Alparket, HbHjalt og Á Grænni Grein sjá um að efna allt efni niður, úthluta því til fólks og aðstoða fólk með samsetningar. Kassabílarnir verða með flöggum frá Frystihúsinu og einnig býður Frystihúsið keppendum upp á Kassabílaís á keppnisdaginn.

Skráning í keppnina fer fram á kassabilarally@gmail.com. Fram þarf að koma nafn á keppendum, aldur ásamt símanúmeri ábyrgðarmanns. Það eru lágmark tveir í liði, einn til að ýta og annar til að stýra. Þá eru fyrirtæki hvött til að taka þátt og eru verðlaun fyrir flottasta fyrirtækjabílinn. Það stefnir því allt í skemmtilega fjölskylduskemmtun í lok ágúst á Akranesi og því um að gera að taka upp hamarinn, finna afgangs timbur og splæsa í einn glæsilegan kassabíl með aðstoð allra í fjölskyldunni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir