Skjaldbakan brosir til ljósmyndarans. Ljósm. sþe.

Skjaldbaka fannst í fjörunni við Kalmansvík

Þau ráku heldur betur upp stór augu krakkarnir sem voru að leik í fjörunni við tjaldstæðin í Kalmansvík á Akranesi síðdegis í dag. Systkinin Sunna Margrét, Salka Kristín og Magnús auk systkinanna Eyjólfs Arnar, Sveins Óla og Grétu Bjargar voru að leik í fjörunni þegar þau sáu dýrið. Skjaldbakan er af gerðinni rauðeyra, en sú tegund tilheyrir fjölskyldu amerískra ferskvatns skjaldbaka og er algengasta tegund skjaldbaka meðal unnenda framandi gæludýra. „Við fundum skjaldböku,“ kölluðu krakkarnir til foreldra sinna sem dvelja á tjaldstæðunum. Krökkunum var í fyrstu ekki trúað, enda ekki á hverjum degi sem slík dýr finnast í fjörum landsins. Líklegt má telja að einhver fyrrum skjaldbökueigandi hafi komið dýrinu fyrir í fjörunni í þeim tilgangi að losa sig við það. Henni „Rauðeyra“ hefur nú verið komið fyrir í plastkassa en farið verður með hana í Húsdýragarðinn í Reykjavík á morgun.

Líkar þetta

Fleiri fréttir