Séð inn í Víðgelmi. Ljósm. vaks

Hraunhellirinn Víðgelmir heimsóttur

Víðgelmir er stærsti hraunhellir landsins og oft sagður konungur íslenskra hella og ekki að ástæðulausu. Eins og nafnið gefur til kynna er Víðgelmir afar stór eða um það bil 148 þúsund rúmmetrar og er einn af lengstu hellum landsins eða 1.585 metrar. Þak hellisins hefur hrunið á allstórum kafla, nærri norðurenda hans, og er þar eini inngangurinn. Hellirinn hefur að geyma litríkar hvelfingar, 1100 ára gamlar hraunmyndanir og árstíðabundinn ís sem setur skemmtilegan svip á umhverfið. Hann er staðsettur í landi Fljótstungu í Hvítársíðu og er í Hallmundarhrauni. Þangað eru um það bil 15 kílómetra frá Húsafelli. Hellirinn var opnaður um miðjan maí fyrir fimm árum síðan fyrir skipulagðar ferðir. Þá var búið að bæta aðgengi að hellinum, smíða tröppur og göngupalla sem eru alls um 600 metrar niður í hellinn, lagt í hann rafmagn og komið fyrir ljósum í honum.

Við innganginn þar sem ferðin hefst. Ljósm. af síðu The Cave.

Blaðamaður Skessuhorns skellti sér nýverið með fjölskyldunni í Víðgelmi og voru fjölskyldumeðlimir mjög sáttir með upplifunina. Ferðin tekur um einn og hálfan tíma niður hellinn og upp aftur og vorum við svo heppin að leiðsögn leiðsögumannsins fór fram á íslensku. Yfirleitt fer hún fram á ensku en þar sem allir í ferðinni voru íslenskir var hún á íslensku og það var fínt fyrir börnin sérstaklega því að efast má um að þau hefðu nennt að hlusta á allt á ensku þegar þau stundum missa athyglina á sínu eigin tungumáli. Leiðsögumaðurinn stoppaði hópinn af og til með ýmsum fróðleik um hellinn og skemmtilegum sögum og aldrei leiddist manni á nokkurn hátt í ferðinni. Þá var mjög skemmtilegur endapunktur í ferðinni, sem best er að segja ekki of mikið um til að skemma ekki fyrir upplifun þeirra sem ætla sér að kíkja í heimsókn í Víðgelmi.

Allir fá hjálma og höfuðljós með í för og gott er að klæða sig vel fyrir ferðina því það getur verið kalt í hellinum, eða um frostmark, og þá er um að gera að fara varlega á röltinu því pallarnir geta verið sleipir á köflum. Miðaverð fyrir fullorðna er sjö þúsund, fyrir börn 7-15 ára kostar 3.800 krónur og frítt er fyrir sex ára og yngri. Sniðugt er að taka með sér nesti og fá sér að borða við þjónustuhúsið áður en lagt er af stað í ferðina og ekki vitlaust að taka með sér í hellinn kaffi eða heitt kakó til að ylja sér og kannski smá súkkulaði!

Fyrir þá sem hafa ekki fengið nóg af hellum eftir þessa ferð þá er stutt að kíkja í Surtshelli sem er einn lengsti og þekktasti hraunhellir á Íslandi eða um 1.970 metrar á lengd. Þá má einnig nefna fleiri náttúruundur í nágrenninu, svo sem Hraunfossa og Barnafoss í Hvítá, sem alltaf er jafn gaman að skoða.

Líkar þetta

Fleiri fréttir