Karl, Steinunn og Ingibjörg standa hér við nýju togvélina. Ljósm. bj

Ungmennafélagið fékk togvél í kveðjugjöf

Hjónin Karl Ingi Karlsson og Steinunn Matthíasdóttir flytja um þessar mundir búferlum úr Búðardal eftir um 20 ára búsetu. Steinunn segir í samtali við Skessuhorn að hún hafi gegnum árin nýtt sér vel þá líkamsræktaraðstöðu sem ungmennafélagið Ólafur Pái hefur staðið myndarlega á bak við. Þau hjónin langaði að færa félaginu þakklætisvott fyrir að halda úti þessari þörfu starfsemi og færðu félaginu að gjöf togvél, sem bætist í flóru tækja í líkamsræktinni. Togvélin virkar þannig að fólk festir fæturna og hvolfir sér og teygir þannig á bakinu. Vélin á eftir að gera bakveikum Dalamönnum gott á komandi árum. Tækið var afhent síðastliðinn fimmtudag og tók Ingibjörg Jóhannsdóttir við því fyrir hönd Ólafs Pá.

Líkamsrækt Ólafs Pá keypti nýja aðstöðu fyrir ræktina rétt fyrir heimsfaraldur Covid-19 og hefur verið að bæta hana undanfarið. Ingibjörg segir aðstöðuna að verða nokkuð vel tækjum búna, en nú sé lagt kapp á öflun tækja og aðstöðu sem gæti nýst fyrir sjúkraþjálfun og er togbekkurinn einmitt mikilvægt tæki sjúkraþjálfara. Næstu tæki verða væntanlega meðferðarbekkur og þau sérhæfðu raftæki sem þarf til sjúkraþjálfunar.

Þeim sem vilja styðja við uppbyggingu þessarar aðstöðu bent á að hafa samband við ungmennafélagið. Ingibjörg vill koma á framfæri kærum þökkum ungmennafélagsins til Steinu og Kalla.

Líkar þetta

Fleiri fréttir