Haraldur Helgason, eigandi Grjótsins-Bistro-Bars.

Grjótið er nýr veitingastaður á Akranesi

Veitinga-, skemmti- og afþreyingarstaðurinn Grjótið-Bistro-Bar við Kirkjubraut 10 á Akranesi var opnaður fyrir Írska daga í sumar. Veitingastaðurinn býður meðal annars upp á mat með mexíkönskum áhrifum. Haraldur Helgason er eigandi staðarins. Að sögn Haraldar leggur staðurinn mikla áherslu á að allt hráefni sé fengið úr héraðinu. Stefnt er að því að staðurinn skapi sex til átta störf. Boðið er upp á sérstakan hádegismatseðil sem inniheldur kjötrétt dagsins, borgara, fisk og salat. Einnig er í boði sérréttamatseðill þar sem sjá má áðurgreind mexíkönsk áhrif. Um helgar er boðið upp á dögurð (brunch) á milli kl. 11 og 15.

Á staðnum eru til staðar tvö fullvaxin pool borð auk þess sem gestum stendur til boða að reyna með sér í pílu. Staðurinn er opinn alla virka daga frá kl. 11 til kl. 23 og frá kl. 11 til kl. 01 föstudaga og laugardaga en sóttvarnaraðgerðir ráða þó opnunartímanum á meðan þær eru í gildi. Haraldur segir að um miðjan ágúst muni staðurinn byrja að bjóða upp á beinar útsendingar frá enska boltanum og jafnframt verði í boði ýmis tilboð í mat og drykk í tengslum við boltann.

Á staðnum verður einnig rekið kaffihús. Haraldur segir kaffihúsið enn vera í mótun en að ljóst sé að það vanti kaffihús í miðbæ Akraness. Segir hann að mikil áhersla verði lögð á hágæða kaffi á kaffihúsinu.

Húsnæði Grjótsins við Kirkjubraut hýsti áður lögregluna á Akranesi og þar með fangelsi bæjarins. Haraldur segir að ætlunin sé að segja sögu hússins með ýmsum hætti á veggjum veitingastaðarins og í stafrænum miðlum á næstu misserum. Aftan við veitingastaðinn er hinn rómaði skrúðgarður Akurnesinga sem nýlega hefur gengið í endurnýjun lífdaga. Þar má meðal annars sjá verkið Stúlka með löngu í gosbrunni skrúðgarðsins en styttan  er nýkomin á sinn stað eftir að hafa verið í viðgerð um árabil. Verkið var formlega vígt eftir endurbæturnar þann 17. júní 2020.

Að sögn Haraldar verður staðurinn opinn alla verslunarmannahelgina fyrir gesti og gangandi, Akurnesinga jafnt og gesti þeirra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir