Svæðið vel girt af á meðan málun stóð yfir og tekinn sá tími sem þurfti fyrir málninguna að þorna. Ljósm. glh

Bjössaróló fær andlitslyftingu

Einn þekktasti róluvöllur á landinu, Bjössaróló í Borgarnesi, fékk í liðinni viku sitt árlega reglubundna viðhald og kærkomna andlitslyftingu. Þar voru að verki ungmenni úr vinnuskóla Borgarbyggðar sem máluðu leiktækin í allskonar glaðlegum og björtum litum sem setja sinn svip á svæðið. Róluvöllurinn var hannaður og smíðaður af Birni Guðmundssyni, trésmíðameistara og þáverandi starfsmanni KBB, en hann setti leikvöllinn upp fyrir utan heimili sitt í Borgarnesi. Bjössi hugsaði mikið um endurnýtingu og smíðaði aðeins úr afgangs timbri sem ella hefði verið hent. Leiktækin eru því einstök og útlit þeirra óhefðbundið frá því sem þekkist á leikvöllum almennt. Viðhaldi á Bjössaróló lauk um helgina og ætti því að vera óhult að gera sér ferð á róluvöllinn vinalega.

Líkar þetta

Fleiri fréttir